hsk_rgb
Aldursflokka- og unglingamót HSK í frjálsum íþróttum fór fram síðasta laugardag í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Í heildina voru skráðir á mótin 144 einstaklingar frá 10 félögum sem verður að teljast mjög góð skráning. Á aldursflokkamótinu sem er fyrir 11-14 ára krakka urðu sigursælust, öll með fjögur gull, Pétur Már Sigurðsson Umf. Selfoss, Sólveig Þóra Þorsteinsdóttir Umf. Þór, Elín Eva Sigurðardóttir Íþrf. Dímonar og Helga Margrét Óskarsdóttir Umf. Selfoss. Margir krakkar voru að keppa þarna á sínu fyrsta móti og vonandi hefur mótið orðið þeim hvatning til frekari afreka. Umf. Selfoss sigraði stigakeppnina á Aldursflokkamótinu örugglega með 251 stigi, Íþróttafélagið Dímon varð í öðru sæti með 150 stig og Umf. Hrunamanna varð í þriðja sæti með 138 stig.
Á Unglingamótinu sem er ætlað unglingum frá 15 til 22 ára voru einungis um 30 keppendur skráðir en oft hafa verið fleiri keppendur á því móti. Sigursælust á mótinu með fimm verðlaun hvert voru Harpa Svansdóttir frá Umf. Selfoss, Rökkvi Hljómur Kristjánsson Íþrf. Garpi og Fannar Yngvi Rafnarson frá Umf. Þór.
Umf. Þór sigraði unglingamótið með 126 stigum, Umf. Selfoss varð í öðru sæti með 84 stig og Íþrf. Garpur var í þriðja sæti með 66 stig. Margar bætingar litu dagsins ljós á mótinu þó engin HSK met hefðu verið slegin að þessu sinni. Þetta var í fimmta árið í röð sem þessi mót eru haldin í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal en það hefur gefið góða raun þar sem krakkarnir fá þar að keppa við sömu aðstæður og á Meistaramótum Íslands. Næsta mót á vegum Frjálsíþróttaráðs HSK eru Héraðsleikar 10 ára og yngri sem verða haldnir á Hellu 1. mars næstkomandi og þar vonumst við að sjálfsögðu til þess að sjá sem flesta keppendur.
Nánari úrslit frá mótum helgarinnar má sjá á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins undir mótaforrit.
Greint var frá þessu í HSK fréttum 23. janúar.