Hafsteinn borinn til grafar
Hafsteinn Þorvaldsson, heiðursfélagi Ungmennafélags Selfoss, er látinn 83 ára að aldri en ungur í anda. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfoss 26. mars 2015.
Hafsteinn tók að sjálfsögðu til máls á aðalfundi félagsins árið 2014. Ræðan var, eins og alltaf þegar hann hóf upp raust sína, hrífandi, hvetjandi og full af bjartsýni. Lokaorðin í ræðu hans eru lýsandi fyrir viðhorf Hafsteins til lífsins og félagins „Kæru vinir. Allt lífið framundan."
Það var viðeigandi, að ósk fjölskyldu Hafsteins, að félagsmenn úr Umf. Selfoss og Héraðssambandi Skarphéðni tóku þátt í að fylgja Hafsteini síðasta spölinn en hann var borinn til grafar í Selfosskirkjugarði föstudaginn 10. apríl.
Það er ljóst að Ungmennafélag Selfoss hefur misst góðan félaga úr sínum röðum. Hafsteinn var formaður Umf. Selfoss á árunum 1962-1963 og átti stóran þátt í að drífa starf félagsins áfram eftir nokkra lægð árin á undan. Alla tíð bar hann hlýhug til félagsins og fylgdist af eldmóði með öllu sem fram fór eins og glögglega kemur fram á mynd sem Guðmundur Karl Sigurdórsson tók af Hafsteini á leið á bikarúrslitaleik Selfoss og Stjörnunnar í ágúst í fyrra.
Ungmennafélag Selfoss þakkar Hafsteini samfylgdina, góð ráð og höfðingsskap um leið og við sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Íslandi allt