FRÍ logo blátt
Sunnudaginn 1. mars sl. fór fram bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 15 ára og yngri í Laugardalshöll. HSK sendi þangað öflugt lið sem stóð vel fyrir sínu varð í fjórða sæti aðeins hársbreidd frá bronsverðlaununum í stigakeppninni. Afrakstur keppninnar varð annars sá að HSK fékk eitt gull, tvö silfur og fjögur brons í einstaklingsgreinum og brons í stigakeppni stúlkna, ásamt því að keppendur liðsins settu sex HSK met. Þátttökulið voru átta talsins.
Pétur Már Sigurðsson Selfossi stóð sig frábærlega er hann varð bikarmeistari í kúluvarpi pilta með 11,51 m kasti og tók svo silfur í hástökki með 1,66m. Antony Karl Flores Laugdælum stóð sig vel í 1500 m hlaupinu þegar hann kom annar í mark á nýju HSK meti innahúss í flokki 14 ára pilta., 5:31,60 mín. Þá varð Valgerður Einarsdóttir Gnúpverjum í þriðja sæti í 1500 m hlaupi stúlkna einnig á nýju HSK meti, í flokkum 13 og 14 ára stúlkna , tíminn 6:00,62 mín.
Í 400 m hlaupi stúlkna hljóp Bríet Bragadóttir Selfoss mjög vel, tíminn 66,27 sek., þriðja sætið og nýtt HSK met í flokki 13 ára stúlkna. Það gerði einnig Valgarður Uni Arnarsson Selfossi er hann kom í mark á 66,47 sek. og setti nýtt HSK met í 15 ára flokki pilta. Árangur þessarra fjögurra hlaupara er enn glæsilegri þegar litið er til þess þau voru að keppa í þessum vegalengdum í fyrsta skipti á ferlinum. Í kúluvarpi stúlkna varpaði Ragnheiður Guðjónsdóttir Hrunamönnum kúlunni 10,68 m., bætti sig persónulega og varð þriðja.
4x200 m boðhlaupsveit HSK í stúlknaflokki tók brons á tímanum 1:58,48 mín. Sveitina skipuðu: Freyja Friðriksdóttir Dímon, Sólveig Þóra Þorsteinsdóttir Þór, Helga Margrét Óskarsdóttir og Bríet Bragadóttir báðar í Selfoss. Piltasveitin kom svo í mark á nýju HSK meti 1:50,46 mín. Sveitina skipuðu Hákon Bigir Grétarsson og Valgarður Uni Arnarsson báðir í Selfoss, Stefán Narfi Bjarnason Baldri og Antony Karl Flores Laugdælum.
Aðrir keppendur HSK stóðu sig einnig vel þó ekki næðu þeir á verðlaunapall.
Ólafur Guðmundsson