Lög Umf. Selfoss

Lög Ungmennafélags Selfoss

1. kafli
Um Umf. Selfoss

1. grein.
Félagið heitir Ungmennafélag Selfoss, skammstafað Umf. Selfoss og hefur aðsetur sitt á Selfossi í Sveitarfélaginu Árborg á Suðurlandi.

2. grein.
Merki félagsins er skjaldarmerki með breiðum útjöðrum í vínrauðum og hvítum lit. Innan í koma orðin UMF Selfoss, 1936.

3. grein.
Keppnisbúningur og æfingabúningur félagsins skal vera í vínrauðum og hvítum aðallitum með hvítri áletrun og merki félagsins í vinstri barmi.
Félagsgalli skal vera með vínrauðum aðallit og merki félagsins í vinstri barmi.
Hverri deild innan félagsins er heimilt að útfæra ofangreinda aðalliti á keppnisbúningum að eigin vild, en þó fá staðfestingu aðalstjórnar. Deildum er heimilt að útfæra æfingafatnað að eigin vild, en þó fá samþykki aðalstjórnar. Heimilt er hverri deild að setja á aðra búninga en keppnisbúninga, táknmerki viðkomandi deildar og stofnár.

2. kafli
Markmið Umf. Selfoss

4. grein.
Markmið félagsins eru:
  a. Að auka áhuga á íþróttaiðkun og líkamsrækt.
  b. Að standa fyrir öflugu og faglegu íþrótta- og félagsstarfi, sérstaklega meðal barna og unglinga.
  c. Efla keppnis- og afreksíþróttir.
  d. Að vinna gegn tóbaksreykingum, neyslu áfengis og annarra skaðnautna.
  e. Að vinna að markmiðum og stefnuskrá Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Einnig Ungmennafélags Íslands með kjörorðunum „ÍSLANDI ALLT“.

5. grein.
Umf. Selfoss er aðili að Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK), sem er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ).

3. kafli
Félagar

6. grein.
Félagið er myndað af einstaklingum sem mynda deildir um iðkun viðurkenndrar íþróttagreinar eða annarrar starfsemi sem samrýmist markmiðum ungmennafélags- og íþróttahreyfingarinnar og hafa sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili félagsins milli aðalfunda.

7. grein.
Félagi getur hver sá orðið sem æskir þess og greiðir árgjald. Heimilt er að skrá sig í fleiri en eina deild. Hægt er að gerast félagi í Umf. Selfoss án þess að ganga í deild innan félagsins og skulu þeir einstaklingar heyra undir aðalstjórn. Félagar skuldbinda sig til að fara að lögum félagsins, hlíta keppnisreglum og vera félaginu til sóma hvarvetna sem þeir koma fram á vegum eða fyrir hönd félagsins. Aðalstjórn er heimilt að víkja félaga úr félaginu hafi hann brotið gegn lögum félagsins eða álíti hún framkomu hans eða gjörðir að öðru leyti vítaverðar.

8. grein.
Heimilt er að afla styrktarfélaga sem hafa öll sömu réttindi og aðrir félagar. Ákveða skal félagsgjald styrktarfélaga til deilda á aðalfundi viðkomandi deildar en til aðalstjórnar á aðalfundi Umf. Selfoss.

9. grein.
Árgjald félaga skal vera það sama hjá öllum deildum og ákveðið á aðalfundi Umf. Selfoss.

4. kafli
Deildir

10. grein.
Deildir skulu standa fyrir iðkun og eftir atvikum æfingum og keppni í viðurkenndum íþróttagreinum skv. skilgreiningu ÍSÍ eða annarri starfsemi sem samrýmist markmiðum íþrótta- og ungmennafélaganna. Framkvæmdastjórn skal halda sérstaka skrá yfir þær deildir sem starfandi eru innan félagsins hverju sinni. Skráin skal staðfest á aðalfundi.
Komi fram skrifleg umsókn um stofnun nýrrar deildar innan félagsins, skal erindið sent til afgreiðslu aðalstjórnar sem ræður niðurstöðu umsóknar.

11. grein.
Hver deild innan félagsins hefur sér stjórn og fjárhag. Stjórn hverrar deildar félagsins skal skipuð að minnsta kosti þrem einstaklingum; formanni, gjaldkera og ritara, sem kjörnir eru sérstaklega á aðalfundi viðkomandi deildar, og meðstjórnendum, en fjöldi þeirra fer skv. ákvörðun aðalfundar hverrar deildar. Allir félagar hafa rétt til að bjóða sig fram til setu í stjórn deilda. Skriflegu framboði til starfa formanns, gjaldkera og ritara skal skila til skrifstofu félagsins, á netfangið umfs@umfs.is, að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund. Ritari skal vera varaformaður og sinna störfum formanns í fjarveru hans. Heimilt er að víkja frá þessari reglu, með samþykki aðalstjórnar, takist ekki að manna laus stjórnarsæti. Kjörtímabil deildarstjórna er á milli aðalfunda viðkomandi deilda. Skylt er að halda stjórnarfundi reglulega. Halda skal sérstaka gjörðabók um stjórnarfundi og senda afrit fundargerða til skrifstofu félagsins, á netfangið umfs@umfs.is, strax að loknum fundi.

Heimilt er að stofna unglingaráð innan deilda sem skal sérstaklega sjá um og vinna að eflingu starfsins hjá börnum og unglingum. Unglingaráð starfar á vegum stjórnar deildarinnar og skal kosið í það á aðalfundi deildar eða skipun þess staðfest á aðalfundi. Deildirnar skulu setja sér nánari reglur um skipun, starfshætti og starfsemi unglingaráðs. Halda skal fjárhag unglingaráðs aðskildum frá öðrum fjárhag deildarinnar en áætlanir og ákvarðanir um fjáraflanir og ráðstöfun fjármuna skulu hljóta samþykki deildarstjórnar, og lúta að öllu leyti sömu skilmálum og gilda um fjármál deilda, sbr. m.a. ákvæði 13. greinar laga þessara.

12. grein.
Stjórnir deilda skulu framfylgja samþykktum aðalfunda deilda og ráða daglegum rekstri þeirra, þar á meðal ráða þjálfara og ákveða laun þeirra. Hver deild skal halda nákvæmt félaga- og iðkendatal samkvæmt lögum og reglum UMFÍ og ÍSÍ. Hver deild skal skila aðalstjórn félagatali sínu fyrir 30. janúar ár hvert.
Rekstur deilda skal vera hallalaus á hverju ári. Aðalstjórn skal setja verklagsreglur um fjárreiður og bókhald félagsins og deilda þess og skal framkvæmdastjórn hafa eftirlit með því að þeim sé fylgt. Aðalfundur deildar skal samþykkja fjárhagsáætlun sem þarf að fá staðfestingu aðalfundar félagsins til að öðlast gildi. Deildum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga umfram fjárhagsáætlun nema með samþykki framkvæmdastjórnar.
Hver deild aflar fjár til sinnar starfsemi og hefur tekjur af:
  a. Árgjöldum deildar.
  b. Æfingagjöldum.
  c. Styrktarfélagsgjöldum.
  d. Ágóða af íþróttamótum viðkomandi deildar.
  e. Lottótekjum skv. skiptareglum og öðru fjármagni til skipta.
  f. Öðrum tekjuöflunarleiðum sem ekki rekast á við starf annarra deilda.
Deildarstjórn skal halda skýrslu um starf deildarinnar sem lögð skal fyrir aðalfund deildarinnar og afhent aðalstjórn til birtingar í ársskýrslu félagsins.

13. grein.
Aðalfundir deilda félagsins skulu vera haldnir eigi síðar en 31. mars fyrir liðið starfsár.
Knattspyrnudeild skal þó heimilt að halda aðalfund á starfsárinu, eftir lok keppnistímabils að hausti, en þó eigi síðar en 30. nóvember og skal þá leggja fram tíu mánaða milliuppgjör. Knattspyrnudeild er samt sem áður skylt að leggja fram endurskoðaðan ársreikning a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund félagsins.
Atkvæðisrétt á aðalfundi deildar hafa allir félagar deildarinnar, enda hafi þeir greitt öll lögboðin gjöld. Kjörgengir eru þó aðeins félagar deildarinnar sem náð hafa 15 ára aldri, nema til formanns og gjaldkera verða þeir að vera 18 ára. Til aðalfundar deilda skal boða með viku fyrirvara með auglýsingu í staðarmiðli og/eða á heimasíðu félagsins, er hann löglegur sé löglega til hans boðað. Stjórn skal leggja fyrir aðalfund fjölfaldaða ársskýrslu, ársreikninga og fjárhagsáætlun.
Dagskrá aðalfunda deilda skal vera sem hér segir:

  1. Formaður deildarinnar setur fundinn.
  2. Kosinn fundarstjóri.
  3. Kosinn fundarritari.
  4. Formaður leggur fram ársskýrslu deildarinnar.
  5. Gjaldkeri leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga, sem síðan eru bornir undir atkvæði.
  6. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun til afgreiðslu.
  7. Stjórnarkjör:
    1. Kosinn formaður.
    2. Kosinn gjaldkeri.
    3. Kosinn ritari sem jafnframt sinnir störfum sem varaformaður.
    4. Kosnir meðstjórnendur, eftir ákvörðun fundarins.
  8. Önnur mál.

Á aðalfundi deilda ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála. Kosning deildarstjórna skal vera skrifleg, ef þurfa þykir. Ef atkvæði eru jöfn skal kosið bundinni kosningu og fáist enn ekki úrslit skal hlutkesti ráða.

14. grein.
Vanræki einhver deild að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal framkvæmdastjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

5. kafli
Aðalfundur Umf. Selfoss

15. grein.
Aðalfundur Umf. Selfoss fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boða með bréfi til stjórna allra deilda félagsins og auglýsingu í staðarmiðli og/eða á heimasíðu félagsins með tveggja vikna fyrirvara og er hann löglegur ef löglega er til hans boðað. Allir félagar 16 ára og eldri hafa kjörgengi til aðalfundar og 18 ára og eldri til stjórnarstarfa í aðalstjórn. Skriflegu framboði til starfa í framkvæmdastjórn, þ.e. formanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnenda skal skila til skrifstofu félagsins, á netfangið umfs@umfs.is, að lágmarki viku fyrir boðaðan aðalfund. Ritari skal vera varaformaður og sinna störfum formanns í fjarveru hans. Allir félagar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins og deilda þess. Aðalstjórn skal leggja fyrir aðalfund fjölfaldaða ársskýrslu félagsins, ársreikninga og fjárhagsáætlun næsta árs.
Aðalstjórn skal skipa þriggja manna uppstillinganefnd, ef þurfa þykir, með hæfilegum fyrirvara fyrir aðalfund. Skal hún skipuð þremur almennum félagsmönnum. Tillögu sinni skal uppstillinganefnd skila til skrifstofu félagsins, á netfangið umfs@umfs.is, eigi síðar en viku fyrir aðalfund.
Skal tillaga uppstillingarnefndar ásamt framkomnum framboðum liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags.
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa eftirtaldir félagar:
1. Framkvæmdastjórn félagsins.
2. Formenn allra deilda félagsins.
3. Gjaldkerar allra deilda félagsins.
4. Auk þess samtals 30 fulltrúar deilda, sem kosnir eru á aðalfundi þeirra eða stjórn tilnefnir skv. ákvörðun aðalfundar deildarinnar, í réttu hlutfalli við iðkendur hverrar deildar á aldrinum 6-17 ára. Við ákvörðun hverjir séu iðkendur skal miðað við að iðkun sé regluleg, a.m.k. einu sinni í viku yfir tímabil sem sé að lágmarki 3 mánuðir á almanaksárinu, skv. skráningu í félagakerfi.
Hver félagi getur aðeins farið með eitt atkvæði. Hafi deild ekki haldið aðalfund eða sent fullgilt félagatal til aðalstjórnar á tilsettum tíma, eða ársreikningar deildar eru ekki samþykktir á aðalfundi hennar missa allir fulltrúar deildarinnar atkvæðisrétt á aðalfundi Umf. Selfoss.
Dagskrá aðalfundar Umf. Selfoss skal vera sem hér segir:

  1. Formaður setur fundinn.
  2. Kosinn fundarstjóri og einn til vara.
  3. Kosinn fundarritari og einn til vara.
  4. Kosin þriggja manna kjörbréfanefnd.
  5. Formaður flytur ársskýrslu félagsins.
  6. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins.
  7. Lagt fram álit kjörbréfanefndar.
  8. Umræður um skýrslu formanns og gjaldkera og reikningar félagsins bornir upp til samþykktar.
  9. Ávörp gesta.
  10. Tillögur lagðar fyrir fundinn.
  11. Verðlaunaafhending.
  12. Kaffihlé.
  13. Umræður og afgreiðsla tillagna.
  14. Lagabreytingar.
  15. Gjaldkeri leggur fram fjárhagsáætlun aðalstjórnar til samþykktar og deilda til staðfestingar.
  16. Ákveðin árgjöld félagsins og deilda
  17. Stjórnarkjör:
    1. Kosinn formaður.
    2. Kosinn gjaldkeri.
    3. Kosinn ritari sem jafnframt sinnir störfum sem varaformaður.
    4. Kosnir tveir meðstjórnendur.
  18. Kosnir tveir skoðunarmenn og tveir til vara.
  19. Kosning í jóla- og þrettándanefnd.
  20. Önnur mál.

Heimilt er fundarstjóra að færa til dagskrárliði með samþykki fundarins.

16. grein.
Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála. Kosningar skulu vera skriflegar ef þurfa þykir. Séu atkvæði jöfn skal kjósa bundinni kosningu um þá menn að nýju. Verði atkvæði þá enn jöfn skal hlutkesti ráða.

17. grein.
Reikningsár félagsins og deilda þess er almanaksárið.

6. kafli.
Aðalstjórn og framkvæmdastjórn.

18.grein.
Framkvæmdastjórn félagsins skipa fimm einstaklingar, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur sem kjósa skal á aðalfundi félagsins ár hvert og mega þau ekki einnig vera formenn deilda félagsins eða starfsfólk deilda. Framkvæmdastjórn fer með hlutverk aðalstjórnar milli aðalstjórnarfunda. Stjórnarfólk annað en formaður skal kosið til tveggja ára, þannig að tveir stjórnarmenn eru kosnir á hverju ári.

19. grein.
Framkvæmdastjórn og formenn allra starfandi deilda, eða annar stjórnarmaður í forföllum formanns, skipa aðalstjórn Umf. Selfoss. Aðalstjórn Umf. Selfoss fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og skal að jafnaði funda ársfjórðungslega. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála í aðalstjórn. Til fyrsta fundar aðalstjórnar skal boða innan 15 daga frá aðalfundi félagsins þar sem leggja skal fram starfsáætlun fyrir allt kjörtímabilið og og tímasetja fundi aðalstjórnar. Óski stjórn deildar félagsins eftir fundi í aðalstjórn skal boða til hans innan viku. Halda skal sérstaka gjörðabók um aðalstjórnarfundi.

20. grein.
Aðalstjórn félagsins ber að framfylgja samþykktum aðalfundar, koma fram fyrir hönd félagsins, efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og ræður starfsemi þess í aðalatriðum í samráði við deildarstjórnir. Alla sjóði félagsins skal ávaxta í banka eða sparisjóði. Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin aðalfundarsamþykkt. Aðalstjórn tekur ákvörðun um skiptingu fjármagns sem félagið hefur aflað og staðið sameiginlega að. Heimilt er aðalstjórn og framkvæmdastjórn félagsins að skipa nefndir sem hún telur þörf á.

7. kafli
Heiðursviðurkenningar

21. grein.
Aðalfundur getur kosið heiðursfélaga Umf. Selfoss hvern þann sem unnið hefur afbragðs starf í þágu félagsins og er það æðsti heiður sem félagið veitir. Til kosningar heiðursfélaga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi. Heiðursfélaga skal afhentur heiðursfélagafáni Umf. Selfoss með áletruðu nafni. Heiðursfélagar eru undanþegnir öllum gjöldum til félagsins.

22. grein.
Eftirtaldar viðurkenningar skulu veittar eftir ákvörðun aðalstjórnar Umf. Selfoss:
1. Björns Blöndal bikar skal veittur þeim einstaklingi innan félagsins eða utan, sem unnið hefur félaginu vel.
2. UMFÍ bikarinn, „deild ársins“. Bikarinn er veittur fyrir mesta félagslega starfið.
3. Gull- og silfurmerki félagsins. Aðal- og framkvæmdastjórn er heimilt að veita merki félagsins fyrir gott starf í þágu félagsins.

23. grein.
Deildir félagsins velja íþróttakarl og íþróttakonu ársins hver í sinni grein, setja reglur þar um og veita verðlaun. Deildir skulu skila tilnefningum íþróttakarls og íþróttakonu Umf. Selfoss til aðalstjórnar eigi síðar en 30. nóvember. Með tilnefningum fylgi greinargerð um íþróttalegan árangur á árinu. Aðalstjórn félagsins skipar fimm einstaklinga í valnefnd sem skal útnefna íþróttakarl Umf. Selfoss og íþróttakonu Umf. Selfoss. Hljóta þau til varðveislu farandgrip í eitt ár og að auki staðfestingargrip til eignar. Til greina koma eingöngu þau sem tilnefnd hafa verið af deildum félagsins auk þeirra sem hafa náð framúrskarandi árangri þar sem ekki er starfandi deild.
Við valið skal tekið mið af eftirfarandi:
a) Alþjóðlegur árangur, landsárangur og árangur á héraðsvísu.
b) Íþróttakarl og íþróttakona Umf. Selfoss þurfa að hafa náð 14 ára aldri.
c) Stöðu viðkomandi íþróttagreinar.

8. kafli
Slit Umf. Selfoss

24. grein.
Ef félagið verður lagt niður verða eigur þess afhentar bæjarstjórn Árborgar til varðveislu.

9. kafli
Lagabreytingar og gildistaka

25. grein.
Lögum þessum má eingöngu breyta á lögmætum aðalfundi félagsins og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur til breytinga á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær vera undirritaðar af flutningsfólki. Framkvæmdastjórn skal senda stjórnum deilda tillögur til lagabreytinga til kynningar a.m.k. 4 dögum fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram, ef það er samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

26. grein.
Lög þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt eldri lög félagsins úr gildi fallin.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Umf. Selfoss hinn 28. apríl 2011.
Uppfærð á aðalfundi hinn 10. apríl 2014, hinn 6. apríl 2017, hinn 22. mars 2018, hinn 4. apríl 2019, hinn 28. apríl 2022 og hinn 18. apríl 2024.