Carmen
Meistaraflokkur kvenna tapaði á móti Haukum um helgina, 23-27. Selfoss byrjaði leikinn illa og Haukar komust í góða forystu strax í upphafi leiks. Það var eins og heimastelpur hafi ekki vaknað fyrr en langt var liðið á hálfleikinn enda áttu þær fá svör við sóknum Hauka. Varnarleikur Selfoss var slakur og markvarsla lítil í kjölfarið. Staðan í hálfleik var 10-17 fyrir Hauka og ljóst að baráttan yrði erfið í seinni hálfleiknum. Basti hefur greinilega farið vel yfir leikinn í hálfleik því allt annað var að sjá til liðsins eftir hlé. Vörnin small saman og okkar stelpur náðu jafnt og þétt að saxa á forskotið. Munurinn var þó of mikill til að Selfoss næði að jafna leikinn en hefðu komist nær ef færin hefðu verið nýtt betur.
Það var margt jákvætt í leik Selfoss og góð barátta í liðinu í seinni hálfleik. Baráttan heldur áfram um að komast í úrslitakeppnina en næsti leikur stelpnanna er fimmtudaginn 5. febrúar á móti Fylki. Leikurinn fer fram í Fylkishöllinni og hefst klukkan 19:30.
Markahæstar í liði Selfoss voru Carmen Palamariu og Hrafnhildur Hanna, báðar með sex mörk. Harpa Sólveig skoraði fjögur mörk, Þuríður Guðjónsdóttir þrjú, Kristrún Steinþórsdóttir tvö mörk, Hildur Öder og Perla Ruth skoruðu eitt mark hvor.
Eins og flestir vita þá eru stelpurnar komnar í 8 liða úrslit í bikar en þar mæta þær einmitt liði Hauka. Sá leikur fer fram á Schenkerhöllinni í Hafnarfirði, þriðjudaginn 10. febrúar klukkan 19:30. Stelpurnar vonast eftir góðum stuðning, en vinnist sá leikur eru þær komnar í Final Four sem fram fer í Laugardalshöllinni í lok febrúar. Mikið í húfi og ekkert annað í boði en að fara alla leið.
Á mynd: Carmen Palamariu