3. flokkur sigraði á útivelli

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

3. flokkur karla sótti Fjölnismenn heim á laugardag og vann þar góðan sigur. Eftir að hafa verið mest sjö mörkum yfir urðu lokatölur 20-23.

Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 0-3. Fjölnismenn jöfnuðu svo í 4-4. Það sem eftir var hálfleiksins var Selfoss alltaf að stækka forskot sitt jafnt og þétt. Í hálfleik var munurinn orðinn fjögur mörk, 9-13. Í síðari hálfleik hélt Selfoss áfram að bæta við og mestur varð munurinn sjö mörk í stöðunni 15-22. Heimamenn klóruðu í bakkann undir lokin og vann Selfoss að lokum 3 marka sigur.

Varnarleikurinn var mjög góður í leiknum og gaman að sjá þristana í vörn brjóta samanlagt 28 fríköst. Það voru samt ekki bara þeir sem voru öflugir því vörnin virkaði mjög vel sem heild í leiknum og markvarslan frábær. Að undanförnu hefur varnarleikurinn hjá þessu liði verið að batna mikið en í upphafi móts varð vörnin liðinu stundum að falli.

Þetta er fjórði sigurleikur Selfoss í röð í 3. flokki og vonandi eru strákarnir ekki hættir enn. Næst á dagskrá er heimaleikur gegn Fram á miðvikudag kl. 19:45.