Yngra árs lið Selfoss mætti Fjölni á sunnudag í lokaleik deildarkeppninnar í 1998 árgangi. Selfyssingar sigruðu leikinn 27-31. Er þetta fjórði sigurleikurinn í röð hjá strákunum og því ljóst að liðið fer í góðu formi inn í úrslitakeppnina sem fer fram í apríl. Alls sigruðu strákarnir 11 leiki af 18 í deildinni í vetur.
Selfyssingar voru lengi í gang varnarlega og voru ekki að ná að stöðva heimamenn í Fjölni í fyrri háflleiknum. Fjölnir var að gera auðveld mörk og náði Selfoss fyrir vikið nær engum hraðaupphlaupum. Staðan í hálfleik var 16-14 Fjölni í vil. Síðari hálfleikurinn var mun betri. Náðu strákarnir þá að þétta vörnina og vinna betur þar. Það skilaði sér í því að þeir voru strax komnir með forystuna og sigruðu að lokum 27-31.
Það munaði öllu að fá einungis 11 mörk á sig í seinni hálfleiknum en varnarleikurinn hefur oft á tíðum verið sterkasta vopn liðsins. Hraðaupphlaupin og sóknarleikurinn eru hins vegar í stöðugri bætingu og liðið skorar alltaf fleiri og fleiri mörk. Gaman verður að sjá hvað Selfyssingar gera í 8-liða úrslitum en þar mætir liðið Gróttu.