Bikarlið HSK/Selfoss ásamt þjálfurum sínum
Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri fór fram í Kaplakrika þann 1.mars sl. HSK/Selfoss sendi lið bæði í karla- og kvennakeppnina. Lið HSK endaði í 5.sæti heildarstigakeppninnar en það var lið ÍR sem urðu Bikarmeistarar. Lið HSK/Selfoss varð í 5.sæti í kvennakeppninni og 8.sæti í karlakeppninni.
Anna Metta Óskarsdóttir varð tvöfaldur Bikarmeistari. Hún sigraði í langstökki þegar hún stökk 5,06m og hún stökk hæðst allra í hástökki þegar hún vippaði sér yfir 1.55m.
Magnús Tryggvi Birgisson fékk bronsverðlaun í langstökki þegar hann stökk 5,05m og hann bætti sinn besta árangur í kúluvarpi er hann kastaði 9,71m.
Fjölmargir voru að bæta sinn besta árangur og stóðu sig mjög vel þrátt fyrir að ná ekki á verðlaunapallinn. Andri Fannar Smárason bætti sinn besta árangur í 1500m hlaupi er hann hljóp á tímanum 6:32,26 mín. Kári Sigurbjörn Tómasson bætti sig í hástökki með því að vippa sér yfir 1.50m. Þórhildur Salka Jónsdóttir hljóp 300m hlaup á tímanum 54,24s og bætti sinn besta árangur og að lokum bætti Dagbjört Eva Hjaltadóttir sinn besta tíma í 1500m hlaupi er hún kom í mark á tímanum 6:23,55 mín.