Barbára Sól og Haukur íþróttafólk Árborgar 2019

Umf. Selfoss - Íþróttafólk Árborgar 2019
Umf. Selfoss - Íþróttafólk Árborgar 2019

Knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Umf. Selfoss, voru útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Sveitarfélagsins Árborgar á árlegri uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar Árborgar sem fram fór á Hótel Selfossi milli hátíða.

Barbára Sól er lykilleikmaður hjá Selfoss en liðið hampaði í sumar Mjólkurbikar KSÍ eftir glæstan sigur á KR í framlengdum úrslitaleik. Í Pepsi Max deildinni varð liðið í þriðja sæti og jafnaði sinn besta árangur frá upphafi. Barbára spilaði alla leiki liðsins í deild og bikar á tímabilinu og lék þar að auki alla þrettán leiki U19 ára liðs Íslands á þessu ári.

Haukur er lykilmaður í liði Selfoss sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í vor. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Á yfirstandandi tímabili er Haukur markahæsti leikmaður deildarinnar með 114 mörk. Haukur er fastamaður í landsliði Íslands og lék í janúar með liðinu á HM í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaður í sögu Íslands til að leika á stórmóti í handbolta.

---

Íþróttafólk Árborgar 2019 Barbára Sól og Haukur.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur