UMFÍ - Landsmót DGI 2017
Dagana 28. júní til 3. júlí fór um fimmtíu manna hópur frá Ungmennafélagi Íslands (UMFÍ) til Danavelds að fylgjast með landsmóti DGI í Álaborg. Í ferðinni eru stjórnendur og fulltrúar ungmennafélaga víða frá Íslandi. Fjórir fulltrúar frá sambandssvæði HSK sóttu mótið þ.e. Guðríður Aadnegard formaður HSK, Olga Bjarnadóttir varastjórn HSK (var fulltrúi Gerplu í hópnum), Gissur Jónsson framkvæmdastjóri Umf. Selfoss og Örn Guðnason varaformaður UMFÍ. Mótið var sett á fimmtudegi og lauk sunnudaginn 2. júlí.
Hópurinn frá Íslandi hefur fylgst með undirbúningi landsmóts DGI um nokkurt skeið. Tilgangur ferðinnar nú var að fræðast frekar um mótið, ræða við stjórnendur DGI um þætti á borð við aðkomu sveitarstjórna og sjálfboðaliða að mótinu, keppendur, tengsl DGI og skipuleggjenda mótsins við fjölmiðla, skipulag þess og fleira sem skiptir máli við skipulagningu stórmóta.
DGI er stytting á Danmarks Gymnastik- og Idrætsforeninger, sem eru systursamtök UMFÍ, og hafa þau haldið landsmót frá árinu 1862. Góð samvinna og mikill vinskapur er á milli DGI og UMFÍ og er hluti af verkefnum UMFÍ byggt á fyrirmyndum sem mótaðar hafa verið hjá DGI.
Stór hópur danskra ungmennafélaga kom til Íslands vorið 2015 til að kynna sér verkefni og störf íslenskra ungmennafélaga. Í ágúst 2015 kom síðan stjórn DGI í heimsókn til þess að kynna sér og upplifa unglingalandsmót UMFÍ.
---
Hópurinn frá UMFÍ að lokinni lokahátíð mótsins sem fram fór á Aalborg stadion.
Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn