Jólamót 9 ára og yngri í frjálsum fór fram í þriðja sinn mánudaginn 10. desember sl. í Iðu. Þar spreyttu tveir yngstu flokkarnir sig í þremur til fjórum greinum. Krakkar 9 ára og yngri kepptu í 30 m spretthlaupi, langstökki án atrennu og skutlukasti, auk þess sem eldri flokkurinn, 8-9 ára krakkarnir, kepptu einnig í kúluvarpi. Flott tilþrif sáust hjá mörgum keppendum og greinilegt að þau hafa verið dugleg að æfa og lagt vel við hlustir við tæknikennslu. Mótið gekk frábærlega fyrir sig, þökk sé vöskum foreldrum sem hjálpuðu til við mælingar og skrif, en keppendur fengu að móti loknu viðurkenningaskjöl með skráðum árangri á. Eftir að hafa tekið á því í greinunum var nauðsynlegt að fylla orkubirgðir að nýju og gæddu keppendur sér á kókómjólk og piparkökum áður en haldið var heim á leið.
-ÁT