Evrópumeistaramótið í hópfimleikum fór fram í Árósum í Danmörku 18.–20. október s.l. Skemmst er frá því að segja að stúlknalið Íslands hampaði Evrópumeistaratitli eftir spennandi keppni í úrslitum. Þá vann kvennaliðið Evrópumeistaratitilinn í annað sinn. Blandað lið unglinga og blandað lið fullorðina höfnuðu bæði í 4. sæti í sínum flokkum. Frá fimleikadeild Selfoss voru 11 keppendur í landsliðum á mótinu en tólfti keppandinn missti af mótinu sökum meiðsla.
Keppni sem þessi er mjög ströng og tekur bæði á líkama og sál. Æfingar fyrir keppnina voru í upphitunar- og keppnishöll á miðvikudag og fimmtudag en keppnin hófst á fimmtudeginum með undanúrslitum í blönduðu liðum unglinga og fullorðinna. Liðunum gekk ágætlega, en blandað lið unglinga varð í 4. sæti í undanúrslitum rétt á eftir Svíþjóð. Blandað lið fullorðina varð í 5. sæti í undanúrslitum vegna mistaka í dansi aðallega og óöryggi í lendingum bæði á dýnu og trampólíni. Eftir undanúrslitakeppnina var lagst yfir æfingarnar og séð hvað betur mætti fara fyrir úrslitin sjálf. Ljóst var að erfiðleiki íslensku liðanna beggja var ekki eins hár og liðanna frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi og því var lagt upp með í báðum blönduðu liðunum að hækka framkvæmdaeinkunnina í stað erfiðleikans. Það tókst hjá báðum liðum í úrslitum. Blandað lið unglinga hækkaði sig á trampólíni og dansi og endaði með 49,333 en það var 1,2 stigum hærra en í undanúrslitum. Blandað lið fullorðina hækkaði sig úr 49,533 stigum í 52,166 stig sem er hækkun um 2,633 stig. Ísland sendi lið til keppni í unglingaflokki í fyrsta skipti á Evrópumót. Var upplifun krakkanna mjög jákvæð og keyrðu þau mjög gott mót. Mikið afrek var að ná að keppa tvisvar í röð og toppa sig á seinni deginum.
Í blönduðu liða unglinga voru Aron Bragason, Ástrós Hilmarsdóttir, Bryndís Arna Þórarinsdóttir og Ægir Atlason. Í hópnum var líka Nadía Björt Hafsteinsdóttir en hún missti af keppninni vegna meiðsla. Bryndís Arna keppti í öllum umferðum á dýnu og trampólíni í undanúrslitum en meiddist í fyrstu umferðinni á dýnunni á laugardeginum í úrslitum. Stökk Ástrós Hilmarsdóttir inn í staðinn fyrir hana alveg svellköld og stóð allt sitt. Aron Bragason meiddist á hné þremur vikum fyrir mót og stökk því ekkert en dansaði bæði í undanúrslitum og úrslitum. Ægir Atlason var yngsti strákurinn í liðinu aðeins 14 ára og stökk í tveimur umferðum á dýnu. Var hann fyrsti varamaður inn á trampólíni ef eldri strákarnir myndu meiðast. Þau stóðust öll pressuna mjög vel í höllinni.
Í blönduðu liði fullorðinna voru Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Helga Hjartardóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir og Rakel Nathalie Kristinsdóttir fulltrúar Selfyssinga. Þær fóru með stórt hlutverk og dönsuðu allar með liðinu. Þær stukku allar annað hvort á dýnu eða trampólíni eða á báðum áhöldum. Þær hafa allar keppt áður á stórmóti nema Hugrún Hlín, en þetta var hennar fyrsta stórmót. Þær stóðust allt sitt með glæsibrag og voru mjög ánægðar með mótið.
Ísland keppti í unglingaflokki kvenna í annað sinn, en á EM 2010 hafnaði lið Íslands í 3. sæti. Þá áttu Selfyssingar tvo keppendur í liðinu, þær Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur og Evu Grímsdóttur. Í ár voru þrjár stúlkur frá Selfossi í liðinu, en það voru Hrafnhildur Hanna og Eva og að auki Margrét Lúðvigsdóttir. Stúlknaliðið gerði sér lítið fyrir og vann Evrópumeistaratitilinn. Stúlkurnar frá Selfossi fóru með stórt hlutverk í liðinu. Í undanúrslitum fékk liðið 52,999 stig, en í úrslitum 54,899 stig sem er mikil bæting. Þær bættu sig á öllum áhöldum. Margrét dansaði á mótinu, Eva dansaði og stökk á dýnunni, en Hrafnhildur Hanna keppti á öllum áhöldum. Allir hlekkir liðsins skipta miklu máli, sama hvort stokkið er í öllum umferðum eða engum. Á endanum er það liðið með sterkustu heildina sem nær fram sigri í svona strangri keppni. Úrslit má nálgast inn á www.teamgym2012.dk.
Selfyssingar áttu líka tvo þjálfara á mótinu. Sigrún Ýr Magnúsdóttir og Olga Bjarnadóttir stýrðu blönduðu liði unglinga ásamt Yrsu Ívarsdóttur frá Gerplu. Þær stöllur voru á sínu þriðja Evrópumeistaramóti og voru mjög sáttar með úrslit mótsins. Liðin sem þær stýrðu toppuðu á réttum tíma og fengu mjög jákvæða reynslu af mótinu.
Stjórn og þjálfarar fimleikadeildar Selfoss óskar þessum verðugu fulltrúum deildarinnar innilega til hamingju með glæstan árangur á Evrópumótinu og eru stolt af því að hafa þau innan sinna raða. Eins vill deildin koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa stutt við bakið á krökkunum og deildinni í þessu verkefni. Án góðs stuðnings er ekki hægt að vinna afrek sem þessi.
-ob