Fyrst og fremst ætlum við að verða betri í handbolta

Örn-akademia
Örn-akademia

Meistaraflokkur kvenna lauk keppni í Olísdeild kvenna um miðjan marsmánuð. Þær höfnuðu í 6.sæti deildarinnar með 9 stig eftir fjóra sigurleiki, eitt jafntefli og 16 tapleiki. Þetta er besti árangur sem meistaraflokkur kvenna hefur náð í íslandsmóti frá upphafi, en liðið hefur þrisvar sinnum náð 7.sæti í efstu deild, 1993, 2016 og 2017. Liðið féll hins vegar úr Coca-cola bikarnum í fyrstu umferð gegn 1.deildarliði HK. 

Selfoss.net gerði upp tímabilið með Erni Þrastarsyni, þjálfara liðsins, en Örn tók við sem þjálfari liðsins í haust og var þetta frumraun hans sem þjálfari meistaraflokks.

Hvað fannst þér um gengi liðsins í vetur?

Heilt yfir er ég mjög ánægður með liðið í vetur ef maður rýnir í frammistöðuna í flestum leikjum, auðvitað komu nokkrir leikir sem fóru illa. Það kom smá tímabil þar sem við vorum ansi þunnskipaðar, eldri stelpurnar voru meiddar og mikil ábyrgð var sett á ungu stelpurnar sem voru flestar bara 16-18 ára og þær stóðu sig gríðarlega vel. Það sem situr mest í mér eftir þennan vetur voru leikirnir gegn Fjölni. Þar áttum við einfaldlega að gera betur og náðum ekki að leika okkar leik, tek reyndar ekkert af Fjölni sem mætti gríðarlega vel til leiks gegn okkur í vetur.

Við vinnum Stjörnuna í fyrsta leik og það án Hörpu sem hefur verið gríðarlega sterk í vetur, við erum mjög nálægt því að vinna Hauka tvisvar sinnum, vorum yfir á móti Fram í hálfleik og gefum flestum liðunum hörkuleik, það gat enginn leyft sér að vanmeta okkur. Við uppskárum að lokum 6. sætið sem er besti árangur kvennaliðs Selfoss í efstu deild frá upphafi, þrátt fyrir að maður hefði kannski viljað vera með fleiri stig að lokum þá snýst þetta einnig um frammistöðu og framfarir frá mínu sjónarhorni. Svo er alltaf gott að vinna réttu leikina.  

Hvað tekur þú jákvætt og neikvætt út úr tímabilinu?

Það sem situr helst eftir þegar ég lít á tímabilið er hversu mikið framlag við fengum frá mörgum leikmönnum. Margar stelpurnar voru í stærra hlutverki en þær hafa verið nokkurn tíman í áður og skiluðu því vel af sér. Við gengum í gegnum miklar breytingar í haust og byrjuðum tímabilið með nánast nýtt lið, miðað við það finnst mér árangurinn og frammistaðan hjá stelpunum alveg stórkostleg. Einnig finnst mér gríðarlega jákvætt hversu góður andi var í liðinu frá fyrstu sekúndu. Andinn á æfingum hefur verið mjög góður og eldri stelpurnar hafa tekið vel á móti þeim yngri, hjálpað þeim í gegnum mótlæti og sýnt þeim þá þolinmæði og hvatningu sem þarf til.

Ég reyni yfirleitt að fókusa á jákvæðu hlutina í okkar leik og að fjölga þeim í staðinn fyrir að vera stanslaust að pikka í þær með einhverja mínusa, en að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem er hægt að bæta. Fyrst og fremst ætlum við bara að verða betri í handbolta, verða sterkari líkamlega og andlega og auka hlaupagetuna, sú vinna tekur tíma og endar líklega aldrei.

Liðið féll snemma úr bikarnum gegn HK, voru það vonbrigði?

Að sjálfsögðu vilja öll lið taka þátt í bikarhelginni, sem er skemmtilegasta helgina á hverju ári. Við töpuðum strax í fyrstu umferð á móti HK, en það er kannski óhætt að segja að það hafi komið okkur aðeins á óvart hversu sterkar þær voru. Við töpuðum sannfærandi og ég verð illa svikinn ef að HK fer ekki upp í Olísdeildina í gegnum umspilið í 1. deildinni. Auðvitað voru þetta vonbrigði, en eftir á að hyggja þá var kannski ágætt að bæta ekki við leikjum í 8-liða og jafnvel 4-liða úrslitum, þar sem við glímdum við talsverð meiðsli seinni hluta tímabils.  Við komum bara sterkari til leiks í bikarinn á næsta ári.

Nú varstu með mjög ungt lið í höndunum, hversu mikilvægt er fyrir þessar ungu stelpur að fá þessa reynslu?

Já það er rétt, meðalaldur liðsins er rétt rúmlega 19 ár sem er mjög ungt, en við spilum að öllu jafna með sex leikmenn fædda árið 2001, eina fædda árið 2000 og eina árið 1999. Reynsluboltarnir okkar eru síðan 22 og 23 ára sem verður seint talinn hár aldur, Viviann er svo gamlinginn okkar, en hún er 26 ára. Þessar stelpur fengu margar hverjar frekar stórt hlutverk og leystu það vel af hendi.  Það er náttúrulega mjög mikilvægt fyrir þessar ungu stelpur að hafa fengið þennan spiltíma í efstu deild. Þetta eru efnilegar stelpur og kemur þetta klárlega til með að efla þær, ég held ég sé ekki að ljúga neinu þegar ég segi að allar hafi bætt sig verulega í vetur og við erum komnar ljósárum lengra en við vorum í haust. Ég held það sé mikilvægt að þær finni að maður treysti þeim og ég vona að það hafi tekist, enda unnu þær sér inn þessi tækifæri sjálfar með mikilli vinnu og metnaði. Það fær enginn neitt gefins þegar komið er í meistaraflokk, þar er þetta bara harkan eintóm.

Eitthvað að lokum?

Já kannski bara það hversu gríðarlega ánægður ég er að hafa fengið þetta tækifæri að þjálfa meistarflokk kvenna á Selfossi. Það hefur lengi verið markmið hjá mér að komast í þjálfun meistaraflokks og átti ég ekkert endilega von á því svona snemma. Það var gaman að hafa fengið að vinna með svona flottum hóp og skemmtilegum stelpum þar sem að góður andi og mikill metnaður kemur saman. Ég held að ég sé sjálfur búinn að læra eitthvað nýtt á hverjum einasta degi í vetur og ég vona að ég hafi náð að skila einhverju frá mér líka.

Svo er ég að sjálfsögðu ekki búinn að gera þetta einn, ég hef fengið mikla hjáp frá fólki í kringum mig og þar má nefna allt teymið í kringum liðið, en ég verð að taka Rúnar og Jósef Geir út fyrir sviga. Rúnar er að vinna stórkostlega vinnu með karla- og kvennaliðið í styrktarsalnum og ég held að Jósef Geir sé einn mikilvægasti maður félagsins í dag, hann gerir ótrúlega mikið fyrir okkur.