Fimleikar - 5. flokkur stúlkna
Um helgina fór fram Íslandsmót í hópfimleikum á Akranesi þar sem keppt var í A deild í öllum flokkum. Fimleikadeild Selfoss átti sex lið á mótinu í sex flokkum. Á mótinu var samankomið fremsta fimleikafólk landsins og má því segja að það hafi verið sannkölluð fimleikaveisla frá föstudegi til sunnudags. Keppendur frá fimleikadeild Selfoss voru áberandi á mótinu og náðu verðlaunum í öllum flokkum sem er stórglæsilegur árangur.
Keppni hófst á föstudag með keppni í meistaraflokki og 1. flokki stúlkna. Stúlknalið Selfoss í 1. flokki, nýkrýndir bikarmeistarar unglinga, uppskáru þriðja sætið eftir harða baráttu við Stjörnuna og Gerplu en keppni í þessum flokki hefur verið afar jöfn á tímabilinu.
Strákarnir okkar í KK yngri mættu eldsnemma á laugardagsmorgun á Skagann. Þeir sýndu glæsilegar æfingar og er gaman að sjá hvað deildin á marga unga og efnilega drengi. Strákarnir fengur silfur á mótinu en Íslandsmótið var jafnframt síðasta mót tímabilsins sem taldi til stiga í deildarkeppninni í hópfimleikum og hlaut KK yngri flest stig í þeirri keppni og eru því deildarmeistarar 2021. Frábær árangur hjá þeim.
Því næst var komið að keppni í 1. flokki blandaðra liða. Krakkarnir er nýkrýndir bikarmeistarar unglinga. Eftir harða baráttu við Hött sigraði lið Selfoss og eru þau Íslandsmeistarar 2021. Liðið var með flest stig eftir deildarkeppnina og voru því einnig krýnd deildarmeistarar 2021. Stórglæsilegur árangur hjá mix liðinu sem átti gott mót og geislaði af leikgleði. Frábært tímabil og þrír titlar í hús.
Stúlkurnar í 3. flokki keppti í síðasta hluta á laugardag. Keppni í 3. flokki á tímabilinu hefur verið mjög hörð og jöfn. Selfoss stúlkur sýndu glæsilegar æfingar og voru efstar í gólfæfingum. Þær uppskáru þriðja sætið á mótinu en hópurinn er ríkjandi bikarmeistari í 3. flokki.
Stúlkurnar í 5. flokki hófu keppni á sunnudag. 5. flokkur er yngsti flokkurinn sem keppt er í hjá Fimleikasambandi Íslands. Selfoss stúlkurnar komu og sýndu glæsilegar æfingar á öllum áhöldum og sigruðu flokkinn sinn og eru Íslandsmeistarar 2021. Stúlkurnar sýndu miklar tilfinningar þegar tilkynnt var um úrslitin. Frábær árangur hjá ungu og efnilegu liði.
Í síðasta hluta mótsins mættu stúlkurnar í 4. flokki til leiks. Stúlkurnar frá Selfossi sýndu stórglæsilegar æfingar og voru efstar á dýnu ásamt liði Gerplu. Eftir harða keppni endaði liðið í þriðja sæti samanlagt sem er frábær árangur.
Liðin sex frá Selfoss sem kepptu á Íslandsmótinu komust öll á verðlaunapall og tóku heim á Selfoss fjóra titla, tvo Íslandsmeistatitla og tvo deildarmeistaratitla. Þetta verður að teljast einstakur árangur og viljum við óska iðkendum og þjálfurum fimleikadeildar Selfoss til hamingju með árangurinn.
Umf. Selfoss/sóh
---
Á mynd með frétt eru stelpurnar í 5. flokki sem fögnuðu Íslandsmeistaratitli.
Á mynd fyrir neðan frétt eru krakkarnir í 1. flokki mix sem fögnuðu Íslandsmeistaratitli.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss