Verðlaunaafhending á Partille Cup
Eins og áður hefur komið fram vann lið Selfyssinga, skipað er drengjum fæddum árið 1997, um helgina glæsilegan sigur á Partille Cup. Mótið er stærsta handboltamót í heimi og er haldið á hverju ári í Gautaborg í Svíþjóð.
Flokkur 16 ára er fjölmennasti flokkurinn með tæplega 100 þátttökuliðum. Þarna kepptu heimsþekkt lið eins og THW Kiel auk meistaraliða frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Frakklandi ásamt fjölda annarra liða. Selfoss vann frönsku meistarana Creteil í úrslitaleik 15:12. Áður höfðu þeir lagt sænska liðið Kristianstad 16:9 í undanúrslitum og Union West Wien frá Austurríki 14:10 í fjórðungsúrslitum. Í 16 liða úrslitum voru Eistarnir í Reval Sport lagðir að velli 19-15 eftir að strákarnir höfðu unnið heimamenn í Torslanda sannfærandi í 32 liða úrslitum 17-8.
Strákar fæddir 1998 náðu einnig þeim frábæra árangi að komast í A-úrslit eins og 97-liðið. Eftir að hafa unnið danska liðið Four Stars 20-19 í 64 liða úrslitun töpuðu þeir naumlega með einu marki 14:15 fyrir Tyresö frá Svíþjóð í 32-liða úrslitum. Þrátt fyrir tapið var frammistaða liðsins á mótinu frábær. Strákarnir lögðu sig alla fram í hvern einasta leik en uppskáru því miður minna er til var sáð. Í heild sinni var mótið mjög jákvætt hjá þeim, sér í lagi ef horft er til spilamennskunnar og leikgleðinnar sem mestu máli skiptir.
Árangur beggja liða er frábær og stór stund fyrir handboltann á Selfossi.
Lesa má meira um ævintýri strákanna og skoða fleiri myndir á bloggsíðunni þeirra.
Búið er að setja saman skemmtilegt myndband úr úrslitaleiknum ásamt viðtölum við strákana strax að loknum leik.