Selfoss mætti Haukum á útivelli í 3. flokki í gær. Leikurinn var æsispennandi, sérstaklega í síðari hálfleik, og fór svo að lokum að heimamenn höfðu 1 marks sigur 28-27. Selfyssingar áttu svo sannarlega eitthvað meira skilið í leiknum en það.
Jafnræði var fyrstu mínúturnar en eftir 3-3 var varnarleikur Selfoss alls ekki góður í fyrri hálfleik. Haukar fara í 9-5 og höfðu lítið fyrir mörkum sínum. Selfoss minnkar í 9-8 en ná ekki að komast nær en það. Munurinn var fjögur mörk, 16-12, þegar flautað var til hálfleiks.
Selfyssingar voru frábærir í síðari hálfleik. Þeir jöfnuðu í 18-18 eftir 7 mínútna leik í seinni hálfleik. Selfoss jafnaði alls sex sinnum í síðari hálfleik en náði aldrei að komast yfir. Seinast jöfnuðu þeir í 27-27 en voru það Haukamenn sem skoruðu seinasta mark leiksins og fóru með sigur 28-27. Selfyssingar voru við það að fá gott færi í lokasókn sinni en þá var Gísli Þór keyrður gróflega niður aftan frá og fékk liðið aukakast fyrir og leiktíminn úti.
Það vantaði svo lítið uppá til að Selfoss fengi eitthvað út úr leiknum. Í öll þessi sex skipti sem Selfoss jafnaði í síðari hálfleik vantaði örlítil klókindi til að komast yfir múrinn og ná forystunni. Oft í þeirri stöðu gerðu strákarnir sig seka um óþarfa mistök og Haukamenn gerðu stundum ódýr mörk þegar möguleiki var fyrir Selfyssinga að ná undirtökunum í leiknum. Varnarleikurinn var annars mjög góður í seinni hálfleik og viljinn þar og baráttan til fyrirmyndar. Seinustu 30 mínúturnar eru svo einnig það besta sem liðið hefur sýnt sóknarlega í vetur. Það er því hægt að taka margt úr þessum leik og byggja á. Grunnurinn er að koma.