Grótta tóku titilinn á Ragnarsmóti Karla

Á laugardaginn lauk Ragnarsmóti karla þetta árið.  Að venju var leikið um öll sæti og einstaklingsviðurkenningar veittar. 

Í fyrsta leik dagsins mættust Þór og Haukar U, sá leikur var allan tímann Þórs og lönduðu þeir að lokum stórum sigri, 38-21.  Í bronsleiknum mættust Selfoss og Víkingur.  Jafnt var á flestum tölum framan af en um miðjan hálfleikinn hlupu Selfyssingar fram úr og þeir hægðu lítið á sér í seinni hálfleik.  Þar spilaði frammistaða markvarða Selfoss stórt hlutverk, en þeir voru með 27 varða bolta í leiknum.  Leikurinn endaði með stórum sigri Selfyssinga 35-20. 

Úrslitaleikurinn var stórgóður, en þar mættust ÍBV og Grótta.  Eyjamenn tefldu fram ungu en stórskemmtilegu liði á Ragnarsmótinu í ár.  Í fyrri hálfleik var allt í járnum og bæði lið með allt í botni, hálfleiksstaðan 18-19.  Mikið skorað og samt voru markmenn liðanna að verja á fullu.  Í seinni hálfleik mátti sjá að það var farið að minnka á bensíntanknum hjá ungu strákunum sem mikið var búið að mæða á.  Gróttumenn sem voru í góðum gír á laugardaginn gengu á lagið og sigu fram úr eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og uppskáru að lokum sigur 41-33 og þar með titilinn eftirsótta.

Markahæstu leikmenn mótsins voru þeir Elis Þór Aðalsteinsson (ÍBV) og Sölvi Svavarsson (Selfoss), báðir með 26 mörk.  Andri Erlingsson (ÍBV) var þar í humátt á eftir með 25 mörk.  Besti markmaður mótsins var Alexander Hrafnkelsson (Selfoss).  Það voru nokkrir markmenn sem voru búnir að setja nafnið sitt í hattinn en Alexander tók þetta til sín eftir alvöru frammistöðu á laugardaginn þar sem hann varði 14 bolta í fyrri hálfleik og fékk á sig 9 mörk.  Besti varnarmaðurinn var valinn Hannes Grimm (Grótta).  Hannes var öflugur í vörninni hjá meisturunum og kórónaði frammistöðu sína þegar Vestmannaeyjaferjan strandaði á honum í úrslitaleiknum.  Besti sóknarmaðurinn var valinn Andri Erlingsson (ÍBV).  Alger prímusmótor í þessu ÍBV liði, skorandi hvaðan sem er af vellinum og dælandi boltum villt og galið.  Verður gaman að sjá hvaða hlutverk hann mun fá hjá Eyjamönnum í vetur.  Leikmaður mótsins var Ágúst Ingi Óskarsson (Grótta).  Sóknarlega alger lykilmaður og öflugur í vörninni, fór á kostum í úrslitaleiknum.

Þar með er Ragnarsmóti karla lokið þetta árið, en þessu er þó hvergi nærri lokið.  Á þriðjudaginn hefja konurnar leik á Ragnarsmóti kvenna.  Þar munu ásamt Selfyssingum mæta FH, ÍBV og Víkingur.

1. Sæti Grótta
2. Sæti ÍBV
3. Sæti Selfoss
4. Sæti Víkingur
5. Sæti Þór
6. Sæti Haukar U

 

Besti markmaður
Alexander Hrafnkelsson - Selfoss

 

Markahæstur
Elís Þór Aðalsteinsson 26 mörk - ÍBV
 
 
Markahæstur
Sölvi Svavarsson 26 mörk - Selfoss
 

Besti varnarmaðurinn
Hannes Grimm - Grótta
 
 
Besti sóknarmaðurinn
Andri Eringsson - ÍBV
 
Leikmaður mótsins
Ágúst Ingi Óskarsson - Grótta
 
 
Ragnarsmótsmeistarar karla 2024
Grótta