Haustmót Fimleikasambands Íslands fór fram í Versölum í Kópavogi dagana 23. og 24. nóvember s.l. Alls tóku átta lið frá Selfossi þátt í fjórum mismunandi flokkum, en mótið var fjölmennt að vanda. Í flokki 9–10 ára náði Selfoss B 2. sæti, Selfoss C 3. sæti og Selfoss A 4. sæti, en í flokknum kepptu átta lið. Skagamenn unnu gullið í þessum flokki. Í flokki 11–12 ára sendu Selfyssingar strákalið en þeir voru eina liðið í þeim flokki og hömpuðu því gullverðlaunum. Þeir vöktu meðal annars mikla athygli fyrir flottar æfingar á gólfi og verður gaman að fylgjast með þeim í vetur.
Kvennamegin kepptu alls sjö lið en stelpurnar í Selfoss 6 gerðu sér lítið fyrir og unnu með yfirburðum. Þær áttu afar glæsilegar æfingar á gólfi og voru langhæstar á því áhaldi. Selfoss 7 hafnaði í 6. sæti í þessum flokki og eiga nóg inni fyrir komandi mót. Í flokki 13–15 ára kepptu Selfoss 5 en þær keyrðu mjög flott mót sem dugði þeim í 2. sætið. Keppnin var mjög jöfn og höfðu Gerplustúlkur sigur í flokknum. Í opnum flokki 15 ára og eldri keppti Selfoss 3. Þær gerðu mikið af mistökum á dýnunni en bættu það upp með frábærum trampólín- og gólfæfingum sem skilaði þeim 2. sætinu, en Gerplustúlkur sigruðu líka þennan flokk.
Þessi árangur á haustótinu gefur góðar vísbendingar um skemmtilegan og spennandi vetur í fimleikunum enda allir hópar á siglingu. Þá er það bara jólasýningin en hún verður haldin í íþróttahúsi Vallaskóla laugardaginn 8. desember næstkomandi og hefst fyrsta sýning kl. 9:30. Hlökkum til að sjá ykkur.
-ob/ög