MÍ 11-14
Seinustu helgi var Íslandsmeistaramót 11-14 ára í frjálsum íþróttum haldið á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Þar áttu Selfyssingar stóran hluta af 52 manna liði HSK-Selfoss sem var fjölmennasta lið mótsins. Eftir mjög jafna og spennandi keppni við ÍR stóðum við uppi sem Íslandsmeistarar í heildarstigakeppninni. Einnig tryggðum við okkur í níu Íslandsmeistaratitla í einstökum greinum auk tveggja titla í boðhlaupum. Þá urðu stelpur í flokki 12 ára og stelpur og strákar í flokki 11 ára Íslandsmeistarar í sínum flokkum.
11 ára stelpur
Hildur Helga Einarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi með 7,77 m og í spjótkasti með 19,43 m. Hún var einnig í 4x100 m boðhlaupssveitinni sem varð Íslandsmeistari. Hildur Helga, Unnur María, Vildís Harpa og Helena voru allar iðnar við að ná í stig fyrir HSK/Selfoss og stóðu uppi sem Íslandsmeistarar í sínum flokki með miklum mun.
11 ára strákar
Kolbeinn Loftsson varð Íslandsmeistari í hástökki með 1,38 m, hann varð annar í 60 m hlaupi og þriðji í kúluvarpi. Hákon Birkir Grétarsson varð annar í kúluvarpi með 8,80 m sem er stórbæting. Þeir voru svo báðir í 4x100 m boðhlaupssveitinni sem varð Íslandsmeistari og ásamt Gabríel Árna og fleirum í HSK/Selfoss urðu þeir Íslandsmeistarar í sínum flokki með miklum yfirburðum.
12 ára stelpur
Helga Margrét Óskarsdóttir varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi á 2:52,23 mín. og þriðja í spjótkasti. Katharína Sybilla Jóhannsdóttir varð þriðja í hástökki með 1,31 m og þær ásamt Natalíu Rut voru hluti af boðhlaupssveitinni sem varð í öðru sæti. Helga, Katharína, Natalía og Sophia Ornella urðu svo Íslandsmeistarar með HSK/Selfoss í 12 ára flokknum eftir spennandi keppni við ÍR.
13 ára stelpur
Stelpurnar okkar, Elísa Rún og Ragna Fríða komust ekki á verðlaunapall en voru að bæta sinn árangur í mörgum greinum og stóðu sig mjög vel.
13 ára strákar
Pétur Már Sigurðsson varð Íslandsmeistari í hástökki með 1,54 m og í 80 m grindahlaupi á 14,22 sek., hann varð þriðji í langstökki með 4,88 m og í kúluvarpi með 11,06 m. Guðjón Baldur Ómarsson varð annar í spjótkasti með 34,12m. Pétur Már, Valgarður Uni og Gabríel Árni (11 ára) voru í boðhlaupssveitinni sem varð í öðru sæti og Guðjón Baldur hljóp með 14 ára boðhlaupssveitinni sem varð í þriðja sæti.
14 ára stelpur:
Harpa Svansdóttir varð Íslandsmeistari í langstökki þegar hún rauf 5 metra múrinn og stökk 5,05 m, hún varð önnur í 80 m grind á nýju HSK meti 13,61 sek. og einnig í kúluvarpi með kast uppá 9,83 m. Í hástökki varð hún svo þriðja með 1,44 m. Halla María Magnúsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi með 11,26 m og í spjótkasti með 34,04 m. Hún varð önnur í 100 m á 13,44 sek. og þær báðar ásamt Diljá Böðvars voru í boðhlaupssveitinni sem varð í öðru sæti. Harpa, Halla María, Diljá og Alma Rún röðuðu inn stigum fyrir HSK/Selfoss og enduðu í öðru sæti í stigakeppninni í sínum flokki.
Efnilegir krakkar á ferð og óskum við þeim til hamingju með árangurinn.