Íslandsmeistarar
Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ dagana 25. og 26. apríl. Selfoss átti þrjú lið sem kepptu á mótinu tvö í kvennaflokki og eitt í flokki blandaðra liða.
Kvennalið Selfoss A hafnaði í fimmta sæti og Selfoss B í sjötta sæti. Aðeins munaði 0,1 á fjórða og fimmta sæti en heil sex stig skildu að sæti þrjú og fjögur svo efstu liðin voru með nokkra yfirburði í þessum flokki. Það var lið Gerplu A í kvennaflokki sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum í fjölþraut með fyrrverandi liðsmann Selfoss, Rakel Nathalie Kristinsdóttur í broddi fylkingar. Í öðru sæti í kvennaflokki varð lið Stjörnunnar í Garðabæ en þar innanborðs áttum við líka einn Selfyssing, Evu Grímsdóttur. Hún stóð sig mjög vel með sínu liði.
Í flokki blandaðra liða var keppnin mjög jöfn og spennandi eins og við var að búast en 1. flokks lið Gerplu og Selfoss kepptu við meistaraflokkslið Gerplu, Stjörnunnar og Ármanns. Bronslið Selfoss frá NM sýndu flotta fimleika en varð aðeins á í messunni á dýnu og áttu mikið inni þar. Þau hlutu hæstu einkunn liða á gólfi og trampólíni og enduðu samanlagt í öðru sæti í fjölþrautinni 0,25 stigum á eftir liði Gerplu B sem hampaði Íslandsmeistaratitilinum í fjölþraut. Í þriðja sæti varð blandað lið Gerplu A en þar var einnig Selfyssingur innanborðs, Aron Bragason.
Laugardaginn 26. apríl fóru fram úrslit á einstökum áhöldum en þrjú efstu liðin á hverju áhaldi frá fjölþrautarkeppninni komust áfram í úrslitakeppnina. Blandað lið Selfoss var eina Selfossliðið að þessu sinni sem komst áfram í úrslit á áhöldum. Þau kepptu um Íslandsmeistaratitil á öllum áhöldum og hömpuðu titlinum bæði í æfingum á dýnu og gólfi.
Þau sigruðu dýnuna með 15,450 stig, 0,450 stigum á undan A-liði Gerplu og svo sigruðu þau gólfæfingar með 0,4 stigum á lið Gerplu B og uppskáru 18.00 í einkunn sem er þeirra langhæsta einkunn í vetur. Þau toppuðu sig á öllum áhöldum og skiluðu hæsta samanlagða skori vetrarins með samtals 49,55 stig. Með því unnu þau samanlagðan árangur seinni daginn með nokkrum yfirburðum eða með meira en 1,20 stiga mun. Þetta er glæsilegur árangur hjá liðinu en vert er að nefna að þau eru í unglingaflokki og gerðu sér lítið fyrir og unnu fullorðinsliðin. Stúkan var virkilega öflug og áhorfendur fengu gæsahúð þegar þau sýndu æfingar sínar. Þau voru öryggið uppmálað seinni daginn og sýnu að þau eru sannir meistarar.
---
Blandað lið Selfoss með verðlaun sín á mótinu.
Fyrir neðan eru allir keppendur Selfoss á mótinu.
Mynd: Umf. Selfoss