Selfoss kvk á Akureyri
Stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Íslandsmeistara Þórs/KA sannfærandi með þremur mörkum gegn einu á Akureyri.
Það voru heimakonur sem stjórnuðu leiknum til að byrja með. Það kom þó ekki í veg fyrir að Andrea Ýr kæmi Selfoss yfir á 25. mínútu leiksins eftir vel útfærða hornspyrnu. Einungis fimm mínútum síðar jók Guðmunda Brynja munin þegar hún skoraði eftir mikið einstaklingsframtak. Í upphafi síðari hálfleiks gerði Tiana Brockway út um leikinn þegar hún skoraði þriðja mark Selfyssinga. Þór/KA klóraði í bakkann á 71. mínútu og undir lok leiksins fékk Tiana sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt. Það skipti engu máli og Selfoss landaði glæsilegum sigri.
Í samtali við vefinn sagði Gunni Borgþórs. að liðið hafi allt spilað virkilega vel og verið vel að sigrinum komið.
Næsti leikur liðsins í Pepsi-deildinni er föstudaginn 14. júní kl. 19:15 þegar topplið Stjörnunnar kemur í heimsókn á Selfossvöll. Hvetjum fólk til að fjölmenna á völlinn að njóta toppfótbolta á Íslandi. Minnum á að Krónan býður á alla kvennaleiki og má nálgast miða á leiki í Krónunni.