Íslandsmet á Selfossvelli

hilmar ingi
hilmar ingi

Innanfélagsmót Umf.  Selfoss fór fram þriðjudaginn 13. ágúst á Selfossvelli. Keppt var í 100 m hlaupi, langstökki, kringlukasti og sleggjukasti karla og kvenna. Góður árangur náðist í kastgreinunum þar sem persónuleg met, vallarmet, Selfossmet, HSK-met og síðast en ekki síst Íslandsmet féllu.

Í 100 m hlaupinu voru það 14 ára og yngri sem kepptu. Þau stóðu sig vel og einhver persónuleg met féllu. Í langstökki karla sigraði Pétur Már Sigurðsson Selfossi með 4,59 m.

Í sleggjukasti pilta 18-19 ára sigraði sjálfur Íslandsmethafinn, Hilmar Örn Jónsson ÍR, en hann gerði sér lítið fyrir og setti nýtt Íslandsmet í sínum aldursflokki með kasti upp á 77,53 m en gamla metið hans var 76,51 m. Þetta er að sjálfsögðu líka vallarmet á Selfossvelli. í sleggjukasti kvenna kastaði Eyrún Halla Haraldsdóttir Selfossi 4 kg sleggjunni 27,24 m og sigraði. Þetta er persónuleg bæting hjá henni upp á u.þ.b. 2 metra. Í sleggjukasti stúlkna 15 ára kastaði lengst Jónína Guðný Jóhannsdóttir Selfossi 33,46 m (3kg) sem er ekki langt frá hennar besta. Í flokki 14 ára stúlkna sigraði Elísa Rún Siggeirsdóttir Selfoss með kasti upp á 27,40 m sem er veruleg bæting og einnig nýtt HSK-met í þessum flokki en gamla metið sem var 26,34 m var í eigu Jónínu Guðnýjar.

Í kringlukasti karla sigraði Guðni Valur Guðnason ÍR með 47,18 m kasti en í kringlukasti kvenna kastaði lengst alla Eyrún Halla Haraldsdóttir Selfossi eða 32,98 m og í öðru sæti varð Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir Suðra með 25,70 m. Í kringlukasti 15 ára stúlkna (600gr) vann Jónina Guðný með kasti upp á 31,61 m en þar á eftir urðu Hildur Helga Einarsdóttir (11 ára) með 22,18 m, Elísa Rún Siggeirsdóttir með 20,51 m og Valdís frá Suðra í 4. sæti kastaði 14,31m.

Sem sagt flottur árangur á innanfélagsmóti Selfoss.

---

Hilmar Ingi með sleggjuna eftir Íslandsmetið
Mynd. Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson