Í byrjun desember sl. útnefndu deildir innan Ungmennafélags Selfoss íþróttafólk ársins í sínum greinum vegna kjörs á íþróttakarli og íþróttakonu Árborgar. Útnefningin fer fram á uppskeruhátíð ÍTÁ fimmtudaginn 3. janúar 2013. Hér að neðan eru talin upp þau sem útnefnd voru íþróttafólk ársins í sinni grein innan Umf. Selfoss.
Fimleikamaður Umf. Selfoss:
Ægir Atlason er 14 ára og hefur keppt í hópfimleikum með blönduðu liði Selfoss sem og karlaliði Selfoss. Hann keppti með unglingalandsliði Íslands í blönduðum flokki á Evrópumeistaramótinu í Danmörku 2012 en liðið hafnaði í 4. sæti.
Fimleikakona Umf. Selfoss:
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er 17 ára og hefur um nokkuð skeið verið ein af lykilmönnum í meistaraflokki Selfoss í hópfimleikum. Hún var á síðasta ári í annað sinn í unglingalandsliði Íslands, en liðið vann nú gull á Evrópumeistarmótinu í hópfimleikum í Danmörku 2012.
Frjálsíþróttamaður Umf. Selfoss:
Sigþór Helgason 15 ára er í afrekshópi ungmenna hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands í spjótkasti og hástökki. Hann varð fjórfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki bæði utanhúss og innanhúss og setti auk þess glæsilegt Íslandsmet í spjótkasti í flokki 15 ára.
Frjálsíþróttakona Umf. Selfoss:
Fjóla Signý Hannesdóttir náði frábærum árangri á árinu, vann fjölda verðlauna og setti mörg met. Hún varð þrefaldur Íslandsmeistari í kvennaflokki, auk þess sem hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari innanhúss. Fjóla Signý hefur verið valin í A-landsliðshóp Íslands fyrir árið 2013.
Handknattleiksmaður Umf. Selfoss:
Einar Sverrisson hefur verið lykilmaður í meistaraflokki Selfoss á þessu ári. Hann er markahæsti leikmaður liðsins og hefur stýrt leik liðsins af myndarskap í vetur. Einar tók þátt í lokakeppni EM með u20 ára landsliði Íslands í Tyrklandi í júlí, en hann hefur verið fastamaður í þeim hópi.
Handknattleikskona Umf. Selfoss:
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er lykilleikmaður meistaraflokks kvenna sem nú leikur í N1 deildinni. Hún hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands á þessu ári og tók m.a. þátt í Partille Cup í Svíþjóð með u18 ára landsliði Íslands og var þar einn besti leikmaður liðsins.
Júdómaður Umf. Selfoss:
Egill Blöndal Ásbjörnsson varð í 2. sæti á NM 15–16 ára og í 3. sæti í Sweden Open International. Hann lenti í 4. sæti á Íslandsmeistaramóti fullorðinna í opnum flokki. Þá valdi Júdósamband Íslands hann efnilegasta júdómann landsins undir 20 ára.
Júdókona Umf. Selfoss:
Þórdís Mjöll Böðvarsdóttir varð Íslandsmeistari í +78 kg flokki 15–16 ára fyrst kvenna hjá júdódeild Umf. Selfoss. Þórdís fór m.a. í æfinga- og keppnisferð til Svíþjóðar og stóð sig mjög vel.
Knattspyrnumaður Umf. Selfoss:
Jón Daði Böðvarsson átti frábært tímabil með meistaraflokki Selfoss og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar. Í framhaldi af því gerðist hann atvinnumaður hjá Viking Stafanger í byrjun árs 2013. Jón Daði lék með u21 árs landsliðinu auk þess sem hann varð fyrsti leikmaður Selfoss til að leika A-landsleik.
Knattspyrnukona Umf. Selfoss:
Guðmunda Brynja Óladóttir var einn af máttarstólpum í liði Selfoss sem lék í fyrsta skipti í efstu deild, en liðið náði að halda sæti sínu í Pepsideildinni. Hún lék nokkra landsleiki með u19 og u23 ára landsliðum Íslands, auk þess sem hún var valin í A-landsliðshóp.
Mótokrosskona Umf. Selfoss:
Einey Ösp Gunnarsdóttir stóð sig vel á mótum ársins og endaði m.a. í þriðja sæti til Íslandsmeistara. Einey hefur bætt sig jafnt og þétt allt árið og á framtíðina fyrir sér í sportinu.
Taekwondomaður Umf. Selfoss:
Daníel Jens Pétursson er án efa einn besti taekwondomaður landsins í dag. Hann var kjörinn taekwondomaður Íslands af TKÍ 2011. Hann vann til nokkurra gullverðlauna á Íslands- og bikarmótum TKÍ á árinu. Þá tók hann þátt í Norðurlandamótinu og var hársbreidd frá verðlaunasæti.
Taekwondokona Umf. Selfoss:
Ingibjörg Erla Grétarsdóttir var valin taekwondokona Íslands 2011 af TKÍ. Hún keppti á NM í Svíþjóð og varð Norðurlandameistari í sparring í sínum flokki. Þá keppti Ingibjörg á Unglingalandsmóti UMFÍ á Selfossi 2012 og vann gull í sparring.
Sundmaður eða sundkona ársins voru ekki valin hjá sunddeild að þessu sinni. Þá má geta þess að Daníel Jens og Ingibjörg Erla verða stödd í Nordik Team æfingabúðum í Svíþjóð í byrjun janúar.
ÖG tók saman.