Lið HSK/Selfoss í 3.sæti í Bikarkeppni FRÍ

Kristinn Þór Bikarmeistari í 3000m hlaupi
Kristinn Þór Bikarmeistari í 3000m hlaupi

 

Bikarkeppni FRÍ í fullorðinsflokki fór fram í Kaplakrika 17. ágúst sl. Lið HSK/Selfoss sendi öflugt lið til keppni sem uppskar  3.sæti í heildarstigakeppninni sem er besti árangur liðisins í nokkur ár. Lið HSK/Selfoss hlaut 108 stig en Bikarmeistarar árið 2024  urðu FH-ingar með 166 stig. Liðsmenn frjálsíþróttadeildar Selfoss stóðu sig mjöð vel og höluðu inn dýrmæt stig.

Kristinn Þór Kristinsson sem ekki hefur sést á brautinni í rúmlega eitt ár náði þeim stórkostlega árangri að verða Bikarmeistari í 3000m hlaupi á tímanum 9:27,40 mín. Bryndís Embla Einarsdóttir sem einungis er 15 ára gömul náði öðru sæti í spjótkasti (600gr) þegar hún kastaði spjótinu 44,75m og bætti eigið Íslandsmet sem var 44,61m frá því í lok júní. Bryndís Embla setti einnig HSK met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Systir Bryndísar, Thelma Björk Einarsdóttir skellti sér aftur í sleggjukasthringinn eftir langt hlé og krækti í silfurverðlaun er hún kastaði sleggjunni 40,07m. Gamla kempan Örn Davíðsson lét ekki sitt eftir liggja þegar hann þeytti spjótinu 69,34m og uppskar silfurverðlaun. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson stökk næstlengst allra í þrístökki er hann stökk 13,31m. Hanna Dóra Höskuldsdóttir bætir sig stöðugt í 100m grindahlaupi og í þetta sinn hljóp hún á tímanum 16,52 sek og uppskar þriðja sætið. Boðhlaupssveit HSK/Selfoss í kvennaflokki kom í mark í þriðja sæti á tímanum 2:28,60 mín í 1000m boðhlaupi. Sveitina skipuðu þær Anna Metta, Hanna Dóra, Hugrún Birna og Helga Fjóla. Ísold Assa Guðmundsdóttir stökk yfir 2,80m í stangarstökki og jafnaði HSK met Eydísar Þórunnar Guðmundsdóttur frá árinu 2001. Aðrir liðsmenn frjálsíþróttadeildarinnar stóðu sig afbragðsvel þó þeir hafi ekki náð þremur efstu sætum.