þorsteinn daniel 02 - Afrit
Selfoss heimsótti BÍ/Bolungarvík á Ísafjörð s.l. laugardag og var boðið upp á sjóðheita markasúpu í köldu veðri og vindasömu. Vallaraðstæður voru vægast sagt mjög slæmar og því erfitt um vik að sýna mikil tilþrif. Djúpmenn eru greinilega vanari þessum aðstæðum og byrjuðu betur. Strax á 4. minútu komust þeir í 1-0. Joe Yoffe jafnaði fyrir Selfoss er um 20 mínútur voru liðnar af leiknum með góðu marki. BÍ komst yfir að nýju skömmu síðar og þannig var staðan í hálfleik. Í síðari hálfleik héldu mörkin áfram að koma. BÍ komst í 3-1 á 49. mínútu eftir mikið klafs og vesen í teig Selfyssinga. Joe skoraði aftur fyrir Selfoss nokkrum mínútum síðar og minnkaði munin í 3-2. BÍ skoraði sitt fjórða mark á 82. mínútu en Joe skoraði þriðja mark sitt úr víti á 88. mínútu. Selfoss sótti stíft undir lokin og freistaði þess að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og svekkjandi tap því staðreynd. Tveir leikmenn Selfoss meiddust í leiknum, Bjarki og Magnús, þurftu að fara út af vegna meiðsla en vonandi er það ekkert alvarlegt. Nú þurfa menn að girða sig í brók og reima skóna fastar fyrir næsta leik laugardaginn 8. júní kl. 14:00 á Selfossvelli gegn Tindastól. Tindastóll hefur byrjað mjög vel í deildinni og hafa á að skipa góðu liði og má því búast við hörkuleik.