Ný stjórn fimleikadeildar kosin á aðalfundi

Ný stjórn fimleikadeildar Selfoss. Frá vinstri: Guðfinna Jenný, Stella, Andrea Ýr, Berglind, Birna Dögg, Ellen Mjöll og Guðrún Erna.
Ný stjórn fimleikadeildar Selfoss. Frá vinstri: Guðfinna Jenný, Stella, Andrea Ýr, Berglind, Birna Dögg, Ellen Mjöll og Guðrún Erna.

Aðalfundur fimleikadeildar Selfoss fór fram miðvikudaginn 12. mars 2025.

Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarmál. Ársreikningar og fjárhagsáætlun voru samþykkt samhljóða. Á fundinum var mikil ánægja með viðsnúning á rekstri deildarinnar, sem var kominn í slæman farveg í lok árs 2023 og því þurfti mikið aðhald í rekstri ársins 2024. Með samstilltu átaki tókst það án þess að það bitnaði á gæðum starfsins sem er frábært.

Andrea Ýr Grímsdóttir bauð sig áfram fram sem formann, Ellen Mjöll Hlíðberg sem gjaldkeri og Berglínd Elíasdóttir kom inn stöðu ritara en Fjóla María Helgadóttir steig úr þeirri stöðu og úr stjórn. Við þökkum henni kærlega fyrir gott samstarf. Birna Dögg Fox Björnsdóttir hélt áfram sem meðstjórnandi og þær Guðfinna Jenný Þorsteinsdóttir, Guðrún Erna Þórisdóttir og Stella Rúnarsdóttir komu nýjar inn sem meðstjórnendur. Stjórnin er spennt fyrir nýju starfsári.

Miklar umræður urðu um aðstöðuleysi deildarinnar, sem er orðið mjög langþreytt vandamál. Baula er löngu sprungin og er áreitið á meðan á æfingum stendur stundum þess eðlis að fáir myndu sætta sig við. Áhöldin okkar eru orðin lúin vegna sífelldra flutninga á milli húsa þegar kemur að viðburðum en einnig af því að vera sífellt pakkað saman og tekin útá hverjum degi, sem er mikið óþarfa hnjask. Salurinn lekur á fjölmörgum stöðum og þegar rignir eru fötur og handklæði á víð og dreif um salinn. Þjálfarar og starfsmenn deildarinnar hafa hvergi vinnuaðstöðu og þurfa þjálfarar meðal annars að taka foreldrasímtöl og samtöl á skólagangi eða í bílnum sínum.
Það hversu lausnamiðaða, þolinmóða og metnaðarfulla þjálfara við höfum hefur orðið til þess að fjöldi iðkenda eykst sífellt og árangur deildarinnar er virkilega góður og vöknuðu spurningar um hvort að deildinni þyrfti að hætta að ganga vel til þess að loksins yrði eitthvað viðhafst í þessum aðstöðumálum. Bæjarstjórn hefur verið meðvituð um það í meira en áratug að aðstaðan okkar sé sprungin og algjörlega óviðunandi en ekkert gerist. Á endanum munum við missa þjálfara og iðkendur vegna þessa, það er ekki spurning hvort heldur hvenær.