2. flokkur kvk og 2. flokkur mix á GK móti.
Um helgina fór fram GK mót og mótaröð í hópfimleikum og átti Selfoss 5 lið í keppni. Mótið fer fram í "semi" sem þýðir að lendingardýnan er mýkri en í hefðbundinni keppni.
2. flokkur keppti á föstudaginn og var flokknum skipt í tvö lið, stúlknalið og blandað lið. Það var virkilega skemmtilegt að það voru 3 lið skráð til keppni í flokki blandaðra liða og gaman fyrir liðið að fá samkeppni. Blandaða liðið keppti með mörg ný stökk og var gaman fyrir þau að hafa tækifæri til þess að prufa nýjar æfingar í mýkri dýnu. Liðið uppskar 1. sætið eftir skemmtilega keppni.
Áhorfendur höfðu orð á því hversu skemmtilegt hefði verið hjá liðinu og það hefði verið áberandi hversu mikið 2. flokks liðin hefðu lagt í að hvetja hvert annað áfram.
2. flokkur stúlkna átti einnig góða keppni, þær kepptu einnig með ný stökk sem þær hafa verið að vinna að í vetur og var mikil gleði sem einkenndi þær á mótinu. Stúlkurnar lentu í 4. sæti á mótinu. Til hamingju krakkar!
Á laugardeginum keppti 1. flokkur og meistaraflokkur í sameiginlegu liði á mótaröð. Mótaröð er haldin 3x yfir keppnistímabilið og safna liðin stigum og eru veitt verðlaun í lok tímabilsins.
15 voru skráðir til leiks og nýtti liðið sér það að mega keppa fleiri en venjulega í umferð og í mýkri lendingu. Það fengu margir að prufa ný stökk og var mótið góður undirbúningur fyrir Bikarmót sem fer fram eftir 3 vikur. Liðið skartaði góðri liðsheild og var ánægjulegt að sjá hversu sterkt lið Selfoss á.

Á sunnudeginum keppti 3. flokkur í tveimur deildum, helmingur liðsins í A-deild og hinn helmingurinn í B-deild.
Liðin áttu bæði góðan dag, 3. flokkur B lenti í 1. sæti á gólfi og 2. sæti á báðum stökkáhöldum og 3. flokkur A lenti í 3.sæti á gólfi og dýnu og 1. sæti á gólfi. Samanlagt lentu bæði liðin í 2. sæti.


Til hamingju með frábæra frammistöðu um helgina, við erum stolt af ykkur öllum! Áfram Selfoss!
Úrslit mótsins má sjá hér