482696_10151546874862594_1236377907_n
Selfyssingar urðu um helgina bikarmeistarar í 4. flokki karla þegar liðið sigraði Fram í úrslitaleik 21-20. Selfoss var með yfirhöndina allan tímann og lenti aldrei undir í leiknum. Þrátt fyrir það var gríðarlega spenna allt til enda og leikurinn svo sannarlega alvöru bikarúrslitaleikur.
Selfoss strákarnir mættu gífurlega vel einbeittir til leiks og komust í 4-0. Framarar komast inn í leikinn eftir það þegar Selfyssingar voru mikið einum leikmanni færri. Alltaf var Selfoss með góð tök á leiknum og staðan 10-8 í hálfleik.
Í seinni hálfleik jafnaði Fram í 12-12. Sýndu strákarnir þá hversu mikið þeir ætluðu sér í leiknum og gerðu næstu fjögur mörk – staðan orðin 16-12. Líkt og í fyrri hálfleik voru Selfyssingar mikið einum leikmanni færri í þeim síðari, oft fyrir skrítnar og litlar sakir, og söxuðu Framarar aftur á muninn. Selfyssingar létu mótlætið aldrei hafa áhrif á sig og héldu alltaf áfram. Þeir voru 21-20 yfir þegar lítið var eftir og Fram í lokasókn leiksins. Eiga þeir skot sem endar í markinu en það kom of seint því leikklukkan hafði flautað áður og 21-20 sigur Selfyssinga staðreynd.
Mikill fögnuður braust út meðal Selfyssinga sem hafa lagt gífurlega hart af sér í vetur. Fengu þeir uppskeru mikils erfiðis. Þeir tóku vikuna fyrir úrslitaleikinn með trompi og undirbjuggu sig mjög vel fyrir leikinn. Varnarlega voru þeir mjög góðir enda einungis 20 mörk fengin á sig í leiknum og nokkur hluti þeirra þegar Selfoss var einum leikmanni færri. Voru þar allir leikmenn að skila sínu frábærlega og vinnslan í vörninni ótrúleg á löngum köflum.
Það hafði mikið að segja að hver einasti leikmaður sem var inná vellinum var tilbúinn að taka ábyrgð og liðið að fá mörk úr öllum stöðum í sókninni. Strákarnir sýndu að þeir eru sannir sigurvegarar og verðugir meistarar með að sigrast á öllu því mótlæti sem kom upp í þessum leik. Einhverjir hefðu brotnað og jafnvel misst einbeitinguna. Selfyssingar hins vegar ætluðu sér sigur og voru eins og áður sagði gífurlega vel undirbúnir. Það skilaði að lokum mögnuðum titli í hús.
Áfram Selfoss