Selfyssingar stefna á Norðurlandamótið

Fimleikar - Stúlknalið I
Fimleikar - Stúlknalið I

Spennandi tímar eru fram undan hjá fimleikadeild Selfoss en bæði stúlknalið Selfoss í 1. flokki og blandað lið stúlkna og drengja í 1. flokki eiga möguleika á að vinna sér inn þátttökurétt á Norðurlandamóti unglinga í hópfimleikum sem mun fara fram í Randers í Danmörku þann 18. apríl nk. Tvö mót telja til stiga en tvö efstu liðin, í hvorum flokki að þeim loknum, vinna sér inn þátttökurétt á mótinu.

Stúlknalið Selfoss er til alls líklegt en þær urðu Íslandsmeistarar í 1. flokki á síðasta tímabili. Blandað lið Selfoss er ungt og efnilegt og er að keppa í fyrsta skipti í 1. flokki á þessu tímabili. Það verður spennandi að fylgjast með krökkunum á næstu vikum en fyrra úrtökumótið fer fram á Selfossi 15. febrúar nk. og hvetjum við Selfyssinga til að mæta og styðja við bakið á liðunum okkar sem æfa nú af kappi fyrir komandi átök.

sóh

---

Stúlknalið Selfoss er á mynd með fréttinni og fyrir neðan er mynd af blandaða liðinu.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss