Fimleikar - Selfoss á Íslandsmótinu 2016 (15)
Subway Íslandsmótið í hópfimleikum var haldið á Selfossi um liðna helgi. Mótið er það fjölmennasta sem haldið hefur verið í hópfimleikum á Íslandi en alls tóku um 1100 keppendur þátt í 90 liðum frá 16 félögum víðs vegar af landinu. Selfyssingar gerðu gott mót og nældu sér í þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo deildarmeistaratitla.
Strákarnir í kky sigruðu sinn flokk með yfirburðum og lönduðu þar með Íslandsmeistaratitilinum og þar sem þetta var þriðji sigur liðsins á jafnmörgum mótum í vetur tryggðu þeir sér deildarmeistaratitilinn sem stigahæsta lið vetrarins í þessum flokki.
Krakkarnir í Selfoss mix í 3. flokki sýndu frábæra takta og sigruðu líka sinn flokk og uppskáru Íslandsmeistaratitil. Þau voru jafnframt að sigra sitt þriðja mót á tímabilinu og fengu því einnig deildarmeistaratitil.
Í 3. flokki A-deild voru það stelpurnar í Selfoss 4 sem komu sáu og sigruðu. Þær voru sjálfstraustið uppmálað og keyrðu mikinn erfiðleika af miklu öryggi og hlutu flest stig liðanna í flokknum og unnu því Íslandsmeistaratitilinn.
Liðin er virkilega vel að þessum titlum komin enda búin að æfa vel í vetur. Fjöldi annarra verðlauna náðist á mótinu en Selfoss nældi í flest verðlaun af þátttökufélögum á mótinu. Öll úrslit mótsins má finna á heimasíðu Fimleikasambandsins.
Mótið fór mjög vel fram og stóðust tímasetningar að mestu leyti. Fjöldi sjálfboðaliða gerðu þetta mót mögulegt og vill stjórn fimleikadeildar Selfoss koma á framfæri þakklæti til þeirra sem lögðu hönd á plóg með einhverjum hætti og fyrirtækjum kærlega fyrir veittan stuðning og velvilja í garð deildarinnar.
ob
---
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Inga Heiða Heimisdóttir