Sigur Selfoss á móti sterku liði ÍBV

Hanna_Perla
Hanna_Perla

Meistaraflokkur kvenna í handbolta átti frábæran leik í dag þegar þær sigruðu sterkt lið ÍBV. Okkar stelpur byrjuðu leikinn betur og náðu þriggja marka forystu þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Jafnt og þétt juku þær forskotið og leiddu í hálfleik 15-9. Selfoss nýtti hálfleikinn greinilega vel því sama leikgleðin var hjá liðinu eftir hlé þegar þær héldu áfram að auka muninn og komust mest átta mörkum yfir í stöðunni 19-11. Það var ekki fyrr en á lokakafla leiksins sem ÍBV tókst að sína sitt rétta andlit og saxa á forskotið en það var bara of seint, enda erfitt að vinna upp svo mikinn mun. Það var samt ekki laust við smá stress hjá okkar stelpum síðustu mínúturnar því eins og allir vita þá eru hlutirnir fljótir að breytast í handbolta og leikurinn ekki búinn fyrr en flautað er af. Eyjastúlkum tókst að minnka muninn niður í tvö mörk en nær komust þær ekki enda barátta Selfoss gríðarleg, þær ætluðu að vinna þennan leik sem þær gerðu 27-25.

Með sigrinum endurheimtu þær 8. sætið í deildinni en það er markmiðið að komast í úrslitakeppnina í vor.

Markahæst í liði Selfoss var Hrafnhildur Hanna með 10 mörk, þar af fimm úr vítum. Þuríður Guðjónsdóttir og Carman Palamariu skoruðu fjögur mörk hvor, Perla Ruth skoraði þrjú og Elena Birgisdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Harpa Sólveig allar með tvö mörk. Áslaug varði 14 skot í marki Selfoss, þar af tvö vítaköst, sem gerir 38% markvörslu.

Nánari umfjöllun um leikinn má finna á vef Sunnlenska.is.

Mynd: Hrafnhildur Hanna og Perla Ruth kátar eftir leik.

Fleiri myndir sem Jóhannes Ásgeir Eiríksson tók má finna hér.