sindri_palmason290813gk_931883397
Selfyssingar hafa samið við þrjá nýja leikmenn en það eru þeir Sindri Pálmason, Denis Sytnik og Ragnar Þór Gunnarsson.
Sindri Pálmason hefur gengið til liðs við Selfyssinga á nýjan leik frá danska félaginu Esbjerg en hann fór til danska liðsins frá Selfossi í byrjun árs 2014. Sindri hefur spilað með unglingaliði Esbjerg en þessi 19 ára gamli leikmaður snýr aftur á Selfoss þar sem hann sá ekki fram á að fá tækifæri með aðalliðinu eins og greint var frá á Fótbolta.net. Sindri mun styrkja lið Selfyssinga til muna en hann lék þrjá leiki með liðinu í 1. deildinni sumarið 2013 áður en hann gekk í raðir Esbjerg.
Í gær var gengið frá félagaskiptum framherjans Ragnars Þórs Gunnarssonar frá Val í Selfoss. Ragnar lék 9 leiki sem lánsmaður með Selfyssingum síðari hluta tímabilsins í fyrra og skoraði eitt mark. Hann á að baki sjö leiki og eitt mark í Pepsideild og Borgunarbikar með Val.
Þá hefur úkraínski framherjinn Denis Sytnik gengið til liðs við Selfyssingum. Denis þekkir vel til í íslenska boltanum þar sem hann spilaði með ÍBV 2010 og 2011 og Grindavík sumarið 2013 þaðan sem hann var lánaður seinni part sumars til Þróttar í Reykjavík þar sem hann spilaði undir stjórn Zoran Miljkovic núverandi þjálfara Selfyssinga.
---
Sindri Pálmason í leik með Selfyssingum í 1. deildinni sumarið 2013.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl