Capture
Selfoss tók á móti Fram um helgina og fengu áhorfendur að sjá spennandi og skemmtilegan leik, sérstaklega í fyrri hálfleik. Selfyssingar áttu frábæra byrjun og komust í 5-1 en þá tóku Framarar við sér og söxuðu á forskotið. Staðan í hálfleik var 9-9 en þess má geta að Fram situr í efsta sæti deildarinnar. Eftir hlé héldu liðin áfram að berjast og stefndi í hörku baráttu um sigurinn en þá kom tíu mínútna slæmur kafli Selfyssinga og Fram náði öruggri forystu. Mestur var munurinn fimm mörk, 16-21 fyrir Fram. Þessi munur var of mikill og erfitt fyrir Selfoss að elta svo öflugt lið. Okkar stelpur náðu aðeins að laga stöðuna en náðu ekki að nýta færin alveg nógu vel og lokatölur 19-23 fyrir Fram.
Það hefur verið góður stígandi í liði Selfoss í vetur. Það var svekkjandi að missa Fram svona langt fram úr sér í þessum leik en nú er bara að spýta í lófana og taka tvö stig í næsta leik en sá leikur fer fram í Kaplakrika í Hafnafirði, á móti FH, föstudaginn 23. janúar.
Markahæst í liði Selfoss var Hrafnhildur Hanna með sjö mörk. Elena Birgisdóttir skoraði þrjú mörk, Kristrún Steinþórsdóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu allar tvö mörk, Hildur Öder Einarsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir og Carman Palamariu skorðu eitt mark hver. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.
Melfylgjandi mynd tók Inga Heiða Heimisdóttir af Carmen, Hildi og Hönnu stöðva sóknarmann Fram. Fleiri myndir frá leiknum má finna hér.