Vilius Rasimas
Áfram hélt handboltinn og í kvöld tóku Selfyssingar á móti ungmennafélagi Aftureldingar. Leikurinn var hluti af 14. umferð í Olísdeildinni og lauk með sigri gestanna, 23-26.
Mosfellingar byrjuðu leikinn betur og komust fljótt í þriggja marka forystu, 1-4. Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í 6-7 og jöfnuðu síðan leikinn í 11-11. Afturelding var hins vegar með eins marks forystu þegar liðin gengu inn í klefa í hálfleik, 13-14. Selfoss náði að jafna leikinn fljótt aftur í 15-15 og 17-17, en þá tóku Mosfellingar við sér og skoruðu næstu fjögur mörk og breyttu stöðunni í 17-21. Það fór allt í lás hjá Selfyssingum sem áttu í kjölfarið afar erfitt uppdráttar sóknarlega. Selfyssingar náðu ekki að brúa þennan mun og leiknum lyktaði með þriggja marka tapi, 23-26.
Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 6, Alexander Már Egan 5, Atli Ævar Ingólfsson 3, Ragnar Jóhannsson 3, Einar Sverrisson 2, Hannes Höskuldsson 2, Tryggvi Þórisson 1, Gunnar Flosi Grétarsson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 18 (40%).
Næsti leikur hjá strákunum er gegn FH í Kaplakrika á sunnudaginn kemur, kl 19:30.
Mynd: Vilius varði vel í markinu.
Umf. Selfoss / SÁ