Grímur, Egill og Þór
Matsumae Cup 2015 fór fram í Vejle í Danmörku helgina 14.-15. febrúar og voru þrír keppendur frá Júdódeild Selfoss, þeir Þór Davíðsson, Egill Blöndal og Grímur Ívarsson. Mótið er haldið af Danska júdósambandinu í samvinnu við Tokai University í Japan. Frá Japan koma keppendur í fremstu röð en auk þess keppendur frá 12 öðrum löndum.
Grímur keppti í flokki keppenda undir 18 ára og náði öðru sæti í sínum þyngdarflokki, hann lét sig síðan ekki muna um það síðan að keppa einnig í sama flokki og Egill Blöndal við keppendur undir 21 árs þetta var nokkuð stór biti fyrir Grím en dýrmæt reynsla og ljóst að ekki vantar kjarkinn og þorið í þennan unga mann.
Egill keppti í flokki keppenda undir 21 árs í fjölmennum og sterkum flokki -90 kg og náði þriðja sæti sem er frábær árangur og ekki munaði miklu að hann næði að keppa til úrslita um efsta sætið. Ljóst er að Egill gerir alltaf tilkall í efsta sæti og þeir sem ætla sér efstu sætin verða fyrst að sigra Egil og það er ekki auðvelt.
Þó að Þór tækist ekki að komast á verðlaunapall í þetta sinn átti hann góðar viðureignir í flokki -100 kg en hann er ekki nema um 94 kg þannig að það háði honum nokkuð og hefur heyrst að Þór ætli að létta sig og keppa í -90 kg.
Um næstu helgi mun Egill og Þór keppa mjög sterku móti í Varsjá, European Judo Open, sem er svokallað A-mót og þar keppa þeir sem eru að ávinna sér rétt til þess að keppa á Ólympíuleikum.
gs
---
Grímur, Egill og Þór á góðri stundu en þó ekki í Danmörku heldur í Laugardalshöll á seinasta ári.
Ljósmynd: Umf. Selfoss