Ráðherranefnd um samræmingu mála samþykkti í seinustu viku lýðheilsustefnu ásamt áætlun um aðgerðir sem stuðla eiga að heilsueflandi samfélagi. Búið er að tryggja fjármagn til að fylgja stefnunni eftir en áætlaður kostnaður vegna þessa nemur rúmum 40 milljónum króna.
Í frétt á vef UMFÍ er því fagnað að lýðheilsustefnan hafi verið samþykkt enda eru markmið hennar í anda ungmennafélagshreyfingarinnar og í samræmi við kjörorðin um ræktun lýðs og lands.
Fólk verði meðvitað um ábyrgð á eigin heilsu
Fram kemur í lýðheilsustefnunni að meginmarkmið hennar sé að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð í heimi árið 2030. Til að það náist verði Íslendingar að vera meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu. Skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir séu jafnframt heilsueflandi og vinni stöðugt að því að auka hreyfingu og útivist, bæta mataræði og efla geðrækt því slíkt leiði til betri heilsu og vellíðunar.
Vara við breyttum áfengislögum
Í Skinfaxa í sumar voru viðtöl við bæði Unu Maríu Óskarsdóttur, verkefnisstjóra ráðherranefndar um lýðheilsu, um lýðheilsustefnuna sem þá var í vinnslu og Birgi Jakobsson landlækni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í málum tengdum lýðheilsu.
Landlæknir gagnrýndi stjórnvöld fyrir stefnuleysi í lýðheilsumálum. Hann sagði þau þurfa að sýna meiri ábyrgð og beina bæði mataræði og áfengisdrykkju landsmanna á réttar brautir. Hann gagnrýndi sérstaklega afnám sykurskatts í loks árs 2014 og frumvarp nokkurra þingmanna sem miðar að því að auka aðgengi landsmanna að áfengi. Landlæknir varaði við sölu á áfengi í matvöruverslunum og sagði það áhættusama og dýra tilraun sem ekki verði hægt að taka til baka.
Una og reyndar Birgir Jakobsson landlæknir líka segja bæði að verði leyft að setja áfengi í matvöruverslunum þá verði það mesta afturför í lýðheilsu sem um getur á Íslandi og of dýrt fyrir skattborgarana.
Una María sagði í viðtalinu að í framtíðinni ættu allar ríkisstofnanir og vinnustaðir að setja sér lýðheilsustefnu. Lýðheilsufræðingar eða aðrir með sambærilega menntun ættu að hafa yfirumsjón með þeim málum líkt og gert er með jafnréttismál.
Una María sá fyrir sér að UMFÍ geti tekið sér stöðu í þeirri vinnu stjórnvalda að bæta lýðheilsu fólks og unnið með stjórnvöldum og almenningi að heilsueflandi samfélagi.
Frekari upplýsingar
Lýðheilsustefna og aðgerðir sem stuðla að heilsueflandi samfélagi - PDF
Viðtal við landlækni um áfengisfrumvarpið og sykurskatt: Sala á áfengi í matvörubúðum er stórhættulegt skref
Viðtal við Unu Maríu Óskarsdóttur um lýðheilsustefnuna: Allir vinnustaðir ættu að hafa lýðheilsufulltrúa