Verðmætir sjálfboðaliðar

hsk_rgb
hsk_rgb

Haustfundur frjálsíþróttaráðs HSK fór fram á Selfossi miðvikudagskvöldið 7. október síðastliðinn. Fundurinn var vel sóttur og á honum sköpuðust góðar umræður eins og greint var frá á vef HSK.

Á fundinum var farið yfir uppgjör MÍ 11-14 ára sem ráðið hélt á Selfossvelli í sumar. Ákveðið var síðasta vetur að nýta mótið sem fjáröflun fyrir aðildarfélög ráðsins og myndi hagnaður mótsins deilast á unnar vinnustundir sjálfboðaliða úr félögunum. Sjálfboðaliðar á mótinu voru 82 talsins og unnu samtals í 840,9 klst. Hver unninn klukkutími gaf af sér 838,92 kr. svo ljóst er að mótið var hin besta fjáröflun fyrir félögin þrátt fyrir að á mótinu hafi verið færri keppendur en ráð var fyrir gert.

Á fundinum var einnig farið yfir fjárhagsstöðu ráðsins sem þykir mjög góð um þessar mundir. Fyrirkomulag komandi keppnistímabils var auk þess rætt og ýmsar hugmyndir látnar flakka um hvað væri hægt að gera skemmtilegt fyrir iðkendur á tímabilinu.