Stelpurnar mættu ógnarsterku Framliði í gær og urðu að sætta sig við stærsta tap vetrarins 33-14, en þetta var jafnframt síðasti leikur liðsins fyrir áramót. Það var ljóst strax í upphafi hvert stefndi. Selfossliðið virkaði stressað og misstu þær marga bolta á fyrstu 15 mín. leiksins og fengu fjölmörg hraðaupphlaup í bakið. Staðan eftir 15 mín. var 12-3. Síðari hluta hálfleiksins róaðist leikurinn aðeins. Stelpurnar náðu aðeins að hrista af sér mesta stressið og byrjuðu að spila betur. Á þessum kafla misfórst hins vegar vítakast og þá skutu þær alls 5 sinnum í tréverkið í fínum færum. Sóknarleikurinn var því aðeins farin að virka og fyrir vikið náðust góð skot á markið sem þýddi að Framliðið fékk ekki eins mikið af hraðaupphlaupum og fyrsta korterið. Þegar stelpurnar komust loksins í vörn þá sýndu þær oft á tíðum glimrandi góða takta og unnu all nokkra bolta. Staðan í hálfleik var 16-5 en hefði allt eins getað verið minni ef að eitthvað af þessum stangarskotum hefði farið inn. En þetta var svona týpískur stönginn út dagur að þessu sinni því að eftir síðari hálfleik var ljóst að alls höfðu 11 skot endað í marksúlunum. Þetta er því miður eitthvað sem gerist í hverjum einasta leik hjá stelpunum og ef þær ná þessum fjölda skota inn fyrir rammann þá mun markaskorið batna til muna.
Eftir hlé gekk sóknarleikur stelpnanna mun betur enda skoruðu þær alls 9 mörk og áttu eins og áður sagði ein 6 skot til viðbótar í markstangirnar. Hraðupphlaupum heimaliðsins fjölgaði lítið framan af síðari hálfleiks en þá var það vörnin sem gaf sig. Framstelpurnar eru bæði stórar og sterkar og munar gríðarlega miklu í líkamlegu atgervi liðanna. Vörn Selfoss átti mjög erfitt uppdráttar og þrátt fyrir hetjulegar tilraunir fékkst lítið út úr vörninni annað en enn meiri þreyta. Það má segja að vörnin hafi verið bensínlaus að þessu sinni. Markvarslan var hins vegar frábær í leiknum og stóðu bæði Áslaug og Ásdís sig mjög vel við erfiðar aðstæður. Þegar 20 mín. voru búnar af síðari hálfleik var staðan 26-13 og staðan í síðari hálfleik aðeins 10-8 fyrir Fram en þá byrjaði Sebastian að skipta varamönnum liðsins inná og leyfa öllum að spila. Margir þeirra leikmanna sem komu þá inná áttu gríðarlega erfitt uppdráttar gegn lykilmönnum Framliðsins og töpuðust síðustu 10 mín. leiksins 7-1 þrátt fyrir frábæra takta Ásdísar í markinu. Alls 8 tapaðir boltar litu dagsins ljós á þessum stutta kafla sem fjölgaði auðveldum hraðaupphlaupstilraunum heimaliðsins til muna, enda mikið stress hjá þeim leikmönnum sem voru að koma inná. Engu að síður þá eru þetta nauðsynlegar mínútur fyrir þá leikmenn og mikil upplifun að fá að spreyta sig gegn þeim bestu. Lokatölurnar 33-14 fyrir Fram.
Þá er Íslandsmótið hálfnað og nú tekur við undirbúningur liðsins fyrir síðari umferðina. Fram til þessa geta stelpurnar og aðstandendur liðsins verið stoltir af liðinu en þær hafa komið mörgum á óvart í vetur. Liðið hefur náð nokkrum virkilega góðum leikjum eins og gegn Haukum heima og HK úti en báðir töpuðust með 2 mörkum í hörku leik. Þá tapaði liðið aðeins með 1 marki í spennutrylli á útivelli gegn Gróttu. Loks má ekki gleyma því að þær héldu í við topplið Stjörnunnar í 50 mín. af 60. Síðast ekki en síst þá eru þær komnar með 4 stig á töfluna. Auðvitað er langt í bestu lið landsins eins og Val, Fram og ÍBV en þeir leikir töpuðust allir illa eða með 14, 15 og 19 marka mun. Til samanburðar má geta þess að önnur lið í deildinni lenda stundum í því að tapa með meira en 20 mörkum gegn þessum liðum þannig að þetta er ekkert einsdæmi. Heilt yfir og hingað til er þetta mjög gott hjá stelpunum. Nú er bara að taka næsta skref í pásunni.
Markaskorar og markvarsla:
Hanna 5
Kristrún 4
Carmen 3
Kara 1
Thelma Björk 1
Áslaug varði 12 skot (33%) og Ádís 5/1 (39%)