20150325_214115
Aðalfundur fimleikadeildar Umf. Selfoss var haldinn í Tíbrá miðvikudaginn 25. mars.
Fram kom í skýrslu formanns að mikið starf og árangursríkt var unnið á árinu. Stjórnin hefur verið samhent og unnið vel saman.
Það eru þó takmörk í hversu mörg ár menn geta sinnt stjórnarsetu í sjálfboðastarfi. Þrír stjórnarmenn létu af störfum á aðalfundinum. Sævar Gunnarsson, varaformaður, eftir 6 ára stjórnarsetu, Óskar Andreasen, meðstjórnandi, eftir 5 ár og Sigurveig Sigurðardóttir, meðstjórnandi, eftir 6 ár. Fimleikadeildin þakkar þeim góð störf fyrir deildina og fagnar því að þau hafa öll sagt að við megum áfram leita til þeirra þegar þörf er á.
Þrír einstaklingar voru kjörin ný í stjórn deildarinnar, þau Dagrún Ingvarsdóttir, Ingibjörg Garðarsdóttir og Karl Óskar Kristbjarnarson. Á myndinni er nýkjörin stjórn f.v. Ingunn Guðjónsdóttir, Dagrún, Þóra Þórarinsdóttir formaður, Karl Óskar, Ingibjörg, Sigríður Erlingsdóttir gjaldkeri og Kristjana Hallgrímsdóttir ritari.
Árangur næst ekki nema með góðri samvinnu og þakkar stjórnin sérstaklega þjálfurum deildarinnar og framkvæmdastjóra fyrir mjög gott starf. Árangur deildarinnar er fyrst og fremst þeim að þakka. Einnig þakkar stjórn foreldrum og velunnurum deildarinnar fyrir þeirra framlag til deildarinnar, það er ómetanlegt að njóta stuðnings þeirra.