2015 Helga nótt og kærleikstréð
Helga Nótt og Kærleikstréð er tíunda jólasýning Fimleikadeildar Umf. Selfoss. Fimleikadeildin hóf jólasýningar í þessari mynd sem þær eru í dag árið 2006 en áður voru hefðbundnar foreldrasýningar þar sem hver hópur sýndi hvað hann hafði verið að læra yfir haustið. Sýningarnar hafa heldur betur undið upp á sig og verða flottari með ári hverju og löngu orðinn fastur liður á aðventunni í Sveitarfélaginu Árborg.
Fimm manna jólasýningarnefnd ber hitann og þungann af skipulagi og undirbúningi en að sjálfsögðu taka allir þjálfarar þátt í undirbúningnum og væri þetta ekki hægt án samstilltra vinnubragða og metnaðar innan deildarinnar. Foreldrar og eldri iðkendur spila einnig stórt hlutverk við undirbúninginn m.a. við förðun og hönnun leikmyndar og búninga.
Jólasýningin í ár fjallar um Helgu Nótt og kærleikstréð en hún stiklar á persónum sem hafa verið í aðalhlutverkum jólasýninga frá upphafi. Við munum sjá Línu Langsokk, Strumpana, Íþróttaálfinn, Sollu Stirðu, Cindy Lou, Trölla, Tímon og Púmba, Simba, Glanna glæp, Fríðu og dýrið, Herra Níels, Dórotheu, Vondu drottninguna, Úlfana, Önnu og Elsu svo eitthvað sé nefnt. Þegar þetta er skrifað er undirbúningur í fullum gangi og börnin farin að æfa atriðin sín markvisst undir stjórn þjálfara.
Jólasýningar sem þessar eru ekki settar upp á einni nóttu og koma margar hendur að verkinu. Margir leggja hönd á plóg á einn eða annan hátt og það ber að þakka. Við höfum verið einstaklega heppin með sögumenn en þeir hafa sýnt mikla þolinmæði við okkur í gegnum árin og komið verkinu svo vel til skila til áhorfenda. Eins ber að þakka Einari Björnssyni í EB-kerfum en hann hefur lánað okkur ljós og starfsmenn til uppsetningar á þeim til að salurinn skarti ávallt sínu fegursta í hvert skipti. Gunnar í Byko hefur verið okkur mjög liðlegur og rausnarlegur síðustu ár og Eimskip-Flytjandi hafa verið okkur innan handar með flutning á milli húsa og geymt jóladótið á milli ára. Alda í Alvörubúðinni hefur svo verið okkar hægri hönd í búningagerð síðustu ár og er enn og aftur með okkur við undirbúning sýningarinnar sem senn verður frumsýnd.
Þjálfarar fimleikadeildar fá oft spurninguna um hvernig svona sýning verði til. Er það nema von? Nú æfa á 400 börn frá fjögurra ára aldri fimleika hjá deildinni og öll koma þau fram í sýningunni. Undirbúningur hefst strax að hausti, þá er farið að spá í hvaða sögu skuli ráðast á og hugmyndir streyma úr ýmsum hornum. Jólasýningarnefnd er skipuð en hún fer með yfirumsjón með öllu sem að kemur sýningunni. Fyrst þarf að finna sögu og aðlaga hana að atriðum barnanna, finna lög við hvert atriði, hentuga búninga og fylgihluti, teikna leikmynd og sjá fyrir ljósanotkun. Ekki er nóg að fá hugmyndina að búningunum heldur þarf að gera þá að veruleika með einum eða öðrum hætti. Þá er saumað, gömlum flíkum breytt, hár spreyjað, pappi málaður og margt fleira. Svo þarf að semja atriðin en þá mæðir mikið á þjálfurunum í deildinni. Næst þarf að æfa atriðin en eins og gefur að skilja þá æfa börnin ekki saman nema í einstökum hópum þar til daginn fyrir sjálfan sýningardaginn. Eftir því sem árin líða og sýningarnar verða fleiri verða iðkendur reyndari og ótrúlegt er að sjá hversu samstillt og ákveðin börnin eru í að láta þetta takast í sameiningu.
Aðaláherslan á jólasýningum hefur verið að leyfa öllum að taka þátt sama á hvaða aldri þeir eru og að allir fái að njóta sín. Það hefur tekist þokkalega undanfarin ár og er þetta hápunktur hjá mörgum í starfinu í deildinni. Eins og áður segir er sýningin í ár afmælissýning og munu áhorfendur fá að líta augum persónur úr jólasýningum síðustu níu ára en þær eru í tímaröð:
Trölli stal jólunum 2006
Konungur ljónanna 2007
Jól í Latabæ 2008
Jól í Strumpalandi 2009
Fríða og dýrið 2010
Lína langsokkur 2011
Galdrakarlinn í OZ 2012
Mjallhvít og dvergarnir sjö 2013
Frozen 2014
Helga Nótt og kærleikstréð 2015
Föstudaginn fyrir sýningu er generalprufa þar sem sýningunni er rennt í gegn í fyrsta sinn með sögumanni, tónlist, búningum og lýsingu. Þetta er einn skrautlegasti dagur ársins og heyrist árlega að þetta eigi nú bara aldrei eftir að takast. Viti menn eftir að allir eru farnir heim eftir generalprufu sitja elstu hóparnir eftir sem fara oftar en ekki með mikilvæg hlutverk, allir þjálfarar og fara yfir hvert einasta smáatriði sem fór úrskeiðis og undur og stórmerki gerast. Sýningargestir streyma að, húsið er orðið fullt, gleðin og eftirvæntingin skín úr andlitum barnanna sem senn fá að sýna hæfileika sína fyrir fullu húsi. Ljósin slokkna, góðir gestir velkomin á jólasýningu Fimleikadeildar Umf. Selfoss árið 2015!