NM Selfoss 2014
Norðurlandamót unglinga í hópfimleikum fer fram í Ásgarði í Garðabæ á laugardag. Mótið er þrískipt en keppt er blönduðum flokki, kvennaflokki og drengjaflokki. Alls taka sjö lið frá Norðurlöndunum þátt í flokki blandaðra liða, níu lið í kvennakeppninni og fimm lið í flokki drengja.
Ísland sendir til leiks tvö lið í blandaða flokkinn en það eru lið Gerplu og Selfoss og í kvennaflokki keppa lið Stjörnunnar og Gerplu. Ekkert karlalið keppir fyrir Íslands hönd í þetta skipti.
Blönduðu liðin keppa í fyrsta mótshluta en hann hefst kl. 10:30, kvennakeppnin hefst kl. 13:30 og karlakeppnin kl. 16:30. Mótið verður allt sýnt í beinni útsendingu á íþróttarás RÚV. Vert er að nefna að nánast er uppselt á mótið og má búast við mikilli stemningu á pöllunum í Ásgarði á laugardaginn. Í tengslum við mótið gaf Fimleikadeild Stjörnunar út NM junior blað sem vert er að skoða.
Selfoss krakkarnir hafa æft mjög stíft fyrir mótið og eru vel stemmd fyrir komandi átök. Stelpurnar eru á aldrinum 13-17 ára en strákarnir eru 16 ára. Keppnin verður mjög jöfn og hörð og getur allt gerst. Krakkarnir stefna á að eiga sinn besta dag í vetur og sjá hvert það skilar þeim.
Keppendur Selfossliðsins eru eftirfarandi: Alma Rún Baldursdóttir 2000, Anna María Steingrímsdóttir 1999, Eysteinn Máni Oddsson 1998, Haraldur Gíslason 1998, Heiðrún Ósk Sævarsdóttir 1997, Hekla Björk Grétarsdóttir 1999, Konráð Oddgeir Jóhannsson 1998, Linda Guðmundsdóttir 1997, Perla Sævarsdóttir 2000, Rannveig Harpa Jónþórsdóttir 1998, Rikharð Atli Oddsson 1998, Rúnar Leví Jóhannsson 1998, Unnar Freyr Bjarnason 1998 og Ægir Atlason 1998.
Þjálfarar liðsins eru Olga Bjarnadóttir, Tanja Birgisdóttir og Sigrún Ýr Magnúsdóttir.
Dómarar á mótinu frá Selfossi eru: Anna Hlín Sverrisdóttir og Olga Bjarnadóttir.
ob
---
Blandað lið Selfoss stefnir á góðan dag í Garðabæ.
Mynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða