Selfyssingar heiðraðir á uppskeruhátíð Fimleikasambandsins

Guðrún T og Ragnheiður T
Guðrún T og Ragnheiður T

Fjölda Selfyssinga voru veittar viðurkenningar fyrir góð afrek á árinu á uppskeruhátíð Fimleikasambandsins sem fór fram sunnudaginn 4. janúar í Björtusölum í Hörpu. Má þar nefna fulltrúa okkur í landsliðum Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum og svo bronsverðlaunahafana í blönduðu liði unglinga frá Norðurlandamótinu í vor.

Á uppskeruhátíðinni hefur tíðkast að veita ýmsar viðurkenningar og þakka fyrir vel unnin störf. Tvær kjarnakonur úr röðum Selfyssinga voru sæmdar starfsmerki FSÍ en það voru þær Guðrún Erna Tryggvadóttir og Ragnheiður Thorlacius. Þær hafa á undanförnum árum komið að starfinu á ýmsan hátt og staðið margar vaktirnar. Báðar hafa þær einnig starfað fyrir FSÍ í nefndum eða stjórn og gert það af fagmennsku. Vert er að nefna að þær spiluðu stórt hlutverk á Evrópumótinu í haust en þær störfuðu þar alla dagana. Þær eru vel að þessum heiðri komnar og er Fimleikadeild Selfoss afar stolt af þeirra störfum.

Stærsti viðburður ársins hjá Fimleikasambandinu var Evrópumeistaramótið sem haldið var í Laugardalshöllinni í október. Skipulagsnefnd mótsins var veittur þakklætisvottur á hátíðinni fyrir frábær störf á árinu og þar áttu Selfyssingar annan fulltrúa, Olgu Bjarnadóttur.

Öllum verðlaunahöfum óskum við til hamingju með frábært fimleikaár og hlökkum til þess næsta.

---

Stöllurnar Guðrún (t.v.) og Ragnheiður með viðurkenningar sínar.
Ljósmynd: Umf. Selfoss