Selfyssingar Íslandsmeistarar í hópfimleikum

Selfoss Mix Íslandsmeistarar 2015 - Vefur
Selfoss Mix Íslandsmeistarar 2015 - Vefur

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram fyrir fullu húsi í Ásgarði í Garðabæ liðna helgi. Selfoss átti tvö lið í keppninni eitt í kvennaflokki og eitt í flokki blandaðra liða (mix). Blandaða lið Selfoss stefndi á sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í fjölþraut á föstudeginum og Stjarnan stefndi á að rjúfa 9 ára sigurgöngu Gerplustúlkna.

Frábærar æfingar hjá blönduðu liði

Blandað lið Selfoss hóf keppni á dýnu. Dýnan var kraftmikil og örugg ef undan er skilin þriðja umferðin þegar röð mistaka átti sér stað í lokin. Lið Sjörnunnar sem var þeirra aðalkeppniautur gerði þó stærri mistök á dýnunni og náði Selfoss því tæpu stigi í forystu eftir það áhald.

Næsta áhald var trampólín en það var framkvæmt af þvílíkri snilld og var liðið með 18 lendingar af 18 mögulegum. Einkunnin eftir því en liðið skoraði 17,550 stig sem er þeirra hæsta einkunn á trampólíni í vetur. Lið Stjörnunnar átti vart möguleika eftir frábærar æfingar Selfyssinga á trampólíni og munurinn orðinn rúmlega þrjú stig eftir þessa umferð.

Þá voru aðeins efir gólfæfingar en Selfossliðið hefur verið mjög vaxandi á því áhaldi í vetur. Þau keyrðu glæsilegar gólfæfingar með mikilli útgeislun og af miklu öryggi. Liðið hækkaði sig um tæpt stig frá síðasta móti og skoruðu 19,683 stig sem er mjög flott danseinkunn og nálgast óðfluga tuttugu stiga múrinn.

Lið Selfyssinga skoraði meira en stigi meira en Stjarnan á gólfi svo munurinn á milli liðanna jókst með hverju áhaldinu. Það var því ljóst að blandað lið Selfoss hampaði Íslandsmeistaratitlinum með nokkrum yfirburðum. Lið Stjörunnar varð í 2. sæti rúmlega fjórum stigum á eftir liði Selfoss og lið Ármenninga í því þriðja heilum tíu stigum á eftir Selfoss.

Stelpurnar náðu sér ekki á strik

Selfossstelpur voru með nokkuð brothætt lið en nokkur óhöpp urðu á endasprettinum fyrir mót og missti liðið út nokkra mikilvæga stökkvara. Þær komu þó ákveðnar itl leiks og áttu mjög flottar gólfæfingar þar sem þær gerðu sér lítið fyrir og bættu einkunn sína frá síðasta móti. Stelpurnar náðu sér ekki á strik á stökkáhöldunum og komust ekki í úrslit á neinu áhaldi þetta árið.

Liðið er mjög ungt en meðalaldurinn þeirra er rétt rúmlega 17 ár. Mótið fer í reynslubankann og mun liðið án efa koma sterkara til leiks að ári.  Stjörnustúlkur náðu að stoppa sigurgöngu Gerplustúlkna með verðskulduðum sigri í kvennaflokki.

Keppni í einstökum áhöldum

Úrslit á einstökum áhöldum fór fram á laugardeginum.

Blandað lið Selfoss keppti til úrslita á öllum áhöldum en í upphitun varð liðið fyrir því óhappi að missa einn liðsfélaga sinn á slysó þegar Eysteinn Máni Oddsson meiddist á trampólíni.  Hann var sendur í myndatöku til öryggis og sem betur fer reyndust meiðsl hans ekki alvarleg. Selfossliðið keppti því án hans og var varamaður settur inná gólfið í hans stað en það sýnir breiddina í liðinu sem er mjög dýrmæt.

Margrét Lúðvigsdóttir var einnig meidd á ökkla eftir föstudaginn en lét það ekki stoppa sig og barðist í gegnum laugardaginn af mikilli hörku og keppti bæði á gólfi og á dýnu en annar stökkvari kom í hennar stað á trampólíni og sýndi mikinn styrk.

Af mikilli hörku og sterkri liðsheild náði Selfossliðið að halda dampi og hömpuðu Íslandsmeistaratitlum bæði á dýnu og á trampólíni. Dýnan skilaði hærri einkunn en á föstudeginum en trampólínið var örlítið lægra þar sem liðið náði 17 lendingum af 18 mögulegum bæði á dýnunni og trampólíninu í úrslitum.

 

Þrefaldir meistarar

Deildarkeppnin í meistaraflokki var einnig hörkuspennandi en liðin keppa á þremur mótum og það lið sem stendur uppi með flest stig eftir mótin stendur uppi sem deildarmeistari. Fyrir föstudaginn voru Stjarnan og Selfoss jöfn að stigum en með sigri Selfyssinga á föstudaginn hampaði liðið jafnframt deildarmeistaratitli í meistaraflokki blandaðra liða.

Liðið er því handhafi allra þriggja titla vetrarins þ.e. Íslandsmeistarar, bikarmeistarar og deildarmeistarar.

Frábær stuðningur

Selfossliðin þakka stuðningsmönnum sínum kærlega fyrir að gera sér ferð í Ásgarð á föstudag og laugardag. Fjölmargir nýttu sér fríar sætaferðir á föstudag sem var mjög skemmtilegt. Hvatningarópin og móttökurnar þegar liðin fóru inn á keppnisvöllinn og framkvæmdu æfingar sínar gerðu gæfumuninn og skiluðu aukakrafti og jákvæðri orku til liðsmanna.

Næsta verkefni er Norðurlandamót

Nú er keppnistímabilinu hjá meistaraflokki lokið og næsta verkefni hjá blandaða liðinu er Norðurlandamót fullorðina sem haldið verður á Íslandi í byrjun nóvember. Það er ekki seinna vænna en að hefja undibúning. Stefnt er að því að koma enn sterkari til leiks þar og halda áfram að vinna saman sem sterk liðsheild og sjá hverju það skilar. Liðið treystir á að Selfyssingar fjölmenni á Norðurlandamótið og máli stúkuna vínrauða.

ob

---

Ljósmynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða Heimisdóttir

 

Hægt er að skoða fleiri myndir frá mótinu á fésbókarsíðunni Selfoss fimleikamyndir.

Þá var tekið á móti hetjunum við heimkomuna á Selfoss á laugardag eins og greint var frá á vef Sunnlenska.is.

Á Þúskjá (Youtube) er hægt að horfa á æfingar blandaða liðsins um helgina:

Æfingar á föstudegi

Æfingar á laugardegi

Hægt er að horfa á mótið í heild sinni á vef RÚV til 15. júlí 2015.