Bryndís Embla með silfur í spjóti á MÍ fullorðinna og Íslandsmet í flokki 15 ára

Bryndís Embla með silfur á MÍ fullorðinna
Bryndís Embla með silfur á MÍ fullorðinna

Meistaramót Íslands var haldið á Akureyri helgina 29.-30.júní sl.  Þrír keppendur frá frjálsíþróttadeild Selfoss tóku þátt í mótinu og stóðu sig allir mjög vel.  Hæst bar árangur Bryndísar  Emblu Einarsdóttir sem þrátt fyrir ungan aldur krækti sér í silfurverðlaun í spjótkasti með stórbætingu. Hún kastaði spjótinu 44.61m og bætti sinn besta árangur um 2,58m. Með þessu kasti bætti Bryndís Embla 26 ára gamalt Íslandsmet Sigrúnar Fjeldsted (600 gr. spjót) um 41cm í flokki 15 ára. Árangurinn er einnig Selfossmet í fullorðinsflokki og HSK met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Bryndís Embla sem er á 15.ári er í 10.sæti á Evrópulista og 30.sæti á heimslistanum  í flokki 17 ára og yngri með 600gr spjóti og  og segir það allt sem segja þarf um hversu gríðarlega efnileg hún er.  Hugrún Birna Hjaltadóttir keppti í langstökki þar sem hún stökk 5,10m og náði 6.sæti og í þrístökki stökk hún 10,31m og náði 5.sæti.  Hildur Helga Einarsdóttir náði ársbesta árangri sínum  í kúluvarpi þegar hún kastaði 11,12m og náði 5.sæti.  

Bryndís Embla, Hildur Helga og Hugrún Birna á MÍ Akureyri