Íslandsmót 2025

1.flokkur Íslandsmeistarar í stúlknaflokki!
1.flokkur Íslandsmeistarar í stúlknaflokki!

Helgina 10. - 13. apríl fór fram Íslandsmót í hópfimleikum og var mótið í umsjón ÍA.

Fimleikadeild Selfoss átti 6 lið á mótinu, tvö lið í 3. flokki, tvö lið í 2. flokki og eitt lið í 1. flokki og meistaraflokki.

Á fimmtudeginum kepptu lið Selfoss í 2. flokki en þar voru mætt til keppni stúlkna lið og blandað lið Selfoss.
Stúlknaliðið hefur verið í mikilli framför í vetur og hefur hækkað sig jafnt og þétt á milli móta, en þær urðu í 2. sæti eftir mjög skemmtilega og jafna keppni. 
Blandaða liðið var líkt og fyrr í vetur með skemmtilega samkeppni en eftir góðan dag lönduðu þau Íslandsmeistaratitli og voru mjög vel að honum komin.
Innilegar hamingjuóskir!


Á föstudeginum keppti meistaraflokkur í 6 liða keppni, þar sem einungis 3 liðanna voru kvennalið og lið Selfoss eitt þeirra. 
Lið Selfoss hóf keppni á gólfi og gerði þar hreinar æfingar og fengu meðal annars mikið hrós fyrir lifandi og flottar gólfæfingar. Næsta áhald hjá þeim var dýna en það urðu dálitlir hnökrar sem kostuðu liðið talsvert af stigum en þrátt fyrir það héldu stúlkurnar ótrauðar áfram og skiluðu öðrum æfingum vel. Síðast kepptu þær á trampólíni og enduðu mótið virkilega vel, öll stökk lent af miklu öryggi og vel framkvæmd. Mótið var í beinni frá RÚV og má finna upptöku hér.
Liðsheild Selfossstúlkanna var til mikillar fyrirmyndar, samheldni, stuðningur og ánægja skinu af þeim og erum við sem áður mjög stolt af þessu flotta liði!



Á laugardaginn var komið að 1. flokki en þær komu inn á mótið sem ríkjandi Íslandsmeistarar og áttu því titil að verja. Þær vörðu Bikarmeistaratitilinn sinn í mars og voru því með skýrt markmið um að halda Íslandsmeistaratitlinum einnig á Selfossi. Stúlkurnar áttu mjög gott mót og skiluðu sínum æfingum virkilega vel - sem dugði til og þær urðu Íslandsmeistarar í 1. flokki stúlkna! Uppskera mikillar vinnu að skila sér en þessar stúlkur leggja mikið á sig á æfingum og áttu þennan titil svo sannarlega skilið. Innilega til hamingju kæru iðkendur og þjálfarar! 

Það er vert að minnast enn og aftur á stúkuna en stuðningsmenn Selfoss eiga sér enga líka - Selfoss hjartað er stórt, vínrautt og svo sannarlega stolt!

Á sunnudag átti 3. flokkur leik og kepptu lið Selfoss í 2 deildum, eitt lið í A-deild og eitt lið í B-deild.
Liðin áttu bæði góða keppnisdaga þar sem þau gerðu sínar æfingar af mikilli leikni og það var vel ljóst að þessi lið eru í mikilli framför og að framtíðin er svo sannarlega björt hjá þeim. Í  B-deildinni varð lið Selfoss í 5. sæti og í A-deildinni varð lið Selfoss í 3. sæti. Virkilega flott hjá ykkur - til hamingju með frammistöðuna.

Öll úrslit má nálgast hér.


Fimleikadeild Selfoss er í samstarfi við Íslandsbanka, Hótel Geysi, Bílverk BÁ, HSH flutningar og þrif og HP kökugerð.