Eftir ágætis gengi í deildinni það sem af er vetri þá var komið að 3. útileik liðsins og var andstæðingurinn í þetta skipti lið Gróttu. Gróttuliðið kom á óvart i deildinni í fyrra og stóð sig vel og ætlar sér eflaust að taka næsta skref í vetur. Liðið er ungt og innan þess fullt af framtíðarleikmönnum.
Leikurinn byrjaði mjög illa fyrir Selfossliðið og var ljóst að heimaliðið kom mun betur undirbúið til leiks. Grótta spilaði góða 3-2-1 vörn sem var mjög grimm og áttu okkar stelpur erfitt uppdráttar í leiknum. Það voru viss vonbrigði því að þær leystu framliggjandi vörn Valsliðsins mun betur en vörn Gróttu í þessum leik. Heimaliðið var komið í 6-1 eftir 15 mín. og á þeim kafla var sóknin mjög slök og fjölmargir tapaðir boltar kostuðu liðið mikið. Varnarleikurinn var þó þokkalegur en markvarslan slök. Um miðbik fyrri hálfleiks tók Sebastian leikhlé og hresstist þá aðeins leikur liðsins. Vörnin small og var mjög góð, en það vantaði enn markvörsluna. Sóknarleikurinn skánaði og mörkin byrjuðu að koma en töpuðum boltum fækkaði lítið. Staðan í hálfleik var því 11-7 fyrir Gróttu. Staðreyndir fyrri hálfleiksins blöstu við í hléinu að sögn þjálfarans eftir leik. Aðeins 2 boltar varðir í markinu og alls 14 tapaðir boltar nánast allt skref og misheppnaðar sendingar. Á sama tíma náðust aðeins 13 skot á markið og af þeim fóru 7 inn. Afar slakt að vera með fleiri tapaða bolta en marktilraunir í hálfleiknum.
Í síðari hálfleik fór varnarleikurinn úr því að vera góður í að vera frábær og nú kom markvarslan með. Grótta skoraði aðeins 6 mörk í síðari hálfleik og Áslaug varði þá 7 skot sem er yfir 50% markvarsla. Sóknarleikurinn var áfram erfiður enda átti vörn heimaliðsins einnig mjög góðan dag. Hins vegar fækkaði töpuðum boltum talsvert og fleiri skot náðust á markið sem skilaði 9 mörkum í netið. Stelpurnar náðu mest að minnka muninn í 16-15 þegar um 5 mín. voru eftir af leiknum og fengu m.a.s. sókn til að jafna þegar tæpar 2 mín. voru eftir, en einhverra hluta vegna var ekki dæmt augljóst fríkast þegar sending misheppnaðist á samherja og Grótta komst í hraðaupphlaup sem endaði með 17 marki þeirra. Selfoss missti síðan aftur boltann þegar þær skutu framhjá úr gegnumbroti en næsta sókn Gróttu endaði síðan í leiktöf. Selfoss náði þá að skora sitt 16 mark stuttu síðar og þrátt fyrir að spila maður á mann síðustu 25 sek. leiksins þá fengu þær aldrei boltann aftur. Niðurstaðan eins marks tap 17-16.
Heilt yfir geta stelpurnar verið stoltar af leiknum. Vörnin var frábær, markvarslan góð í síðari hálfleik og sóknin batnaði þegar leið á leikinn. Lexían úr þessum leik er því skýr. Mæta tilbúnar í leiki og hefja þá á réttum tíma. Kannnski hefðu þær fengið meira út úr leiknum ef að þær hefðu ekki misst Gróttu frá sér í 6-1 á fyrsta fjórðungi leiksins. Engu að síður frábær karakter að koma til baka og gefast aldrei upp. Byrjunin fer í reynslubankann og næst ná þær vonandi að skila svona jöfnum leik í stig.
Markaskor Selfoss var þannig að Hanna skoraði 5/1, Carmen 4/1, Kristún 3, Tinna 2, Hildur 1 og Dagný 1.
Næsti leikur er gegn stórliði Stjörnunnar á laugardaginn í Vallaskóla en í því liði spila nokkrir öflugir landsliðsmenn eins og Rakel Dögg, Jóna Margrét, Guðrún Hanna og Sunneva. Auk þeirra eru nokkrir öflugir leikmenn, sumir fyrrverandi landsliðsmenn, í bland við efnilegar stelpur sem sumar eru í yngri landsliðum Íslands. Biðjum við því fólk að koma og styðja stelpurnar í síðasta heimaleik liðsins fyrir áramót.