Á föstudag léku bæði lið 4. flokks karla gegn ÍBV í íþróttahúsi Vallaskóla. A-liðið reið á vaðið og sigraði 30-27 eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik. B-liðið sigraði 32-24 en þeir voru 15-11 yfir í hálfleik.
Í leik A-liðanna byrjaði Selfoss mun betur og stjórnaði leiknum frá byrjun. Öflug 3-2-1 vörn skilaði liðinu 5-0 forskoti en mest náðu Selfyssingar átta marka forystu í fyrri hálfleik, 15-7. Gestirnir skoruðu hins vegar seinustu þrjú mörk hálfleiksins og bjuggu til smá von fyrir síðari hálfleikinn. ÍBV minnkaði muninn í þrjú mörk en þeir komust ekki nær en það og lokatölur 30-27 sigur Selfoss.
Varnarleikur liðsins í fyrri hálfleik var magnaður og segja 34 brotin fríköst í fyrri hálfleik einum og sér þar alla söguna. Eitt af því jákvæðasta við leikinn er því klárlega það að liðið sýndi að það getur vel spilað 3-2-1 vörn. Í sókninni voru leikmenn Selfoss yfirvegaðir og spiluðu vel saman.
Góður sigur hjá strákunum en þessi leikur var bara fyrri hlutinn gegn ÍBV á einni viku. Nú tekur seinni hlutinn við því næstkomandi fimmtudag leika sömu lið aftur, þá í undanúrslitum bikarkeppninnar. Þar er aftur byrjað á byrjunarreit og þurfa strákarnir aftur að ná upp góðri spilamennsku til að knýja fram sigur og komast í úrslitaleikinn.
Í B-liðum byrjaði Selfoss einnig betur og komst í 6-2. Strákarnir leiddu með 3-4 mörkum það sem eftir var í hálfleiknum og náði aldrei að slíta gestina almennilega frá sér. Hálfleikstölur voru 15-11. Í síðari hálfleik náði Selfoss að auka forskotið í fimm mörk og svo sex. Að lokum varð 8 marka sigur, 32-24 niðurstaðan.
Góður sóknarleikur skilaði Selfoss sigri í þessum leik. Liðið er stöðugt að bæta spilamennsku sína á þeim hluta vallarins og vonandi að sú þróun haldi áfram út þetta tímabil. Varnarleikurinn var aftur á móti ekki nægilega góður í þessum leik. Þó var jákvætt að inn á milli komu öflugir varnarkaflar sem gætu verið það sem koma skal út tímabilið.