1997 liðið í 4. flokki lék í gær fyrsta leik keppnistímabilsins er liðið heimsótti HK. Búið er að árgangaskipta 4. flokki og nú keppt í eldri og yngri (1997 og 1998). Óhætt er að segja að Selfoss liðið byrji tímabilið vel en strákarnir unnu sannfærandi sigur á HK 25-34.
Selfyssingar voru um fimm mínútur að hrista úr sér skrekkinn. Staðan var 3-3 en frábær kafli kom Selfossi 3-8 yfir. Okkar menn héldu áfram og fóru í 6-13 og voru svo 11-17 yfir í hálfleik. Sigur Selfoss var aldrei í hættu í síðari hálfleik og 9 marka sigur að lokum staðreynd.
Frábær varnarleikur, þá sérstaklega í fyrri hálfleik, skóp þennan sigur en vörnin bjó til mikið af ódýrum mörkum fyrir liðið. Fyrir utan kafla í byrjun síðari hálfleiks þar sem HK-ingar skoruðu 8 mörk á skömmum tíma fundu heimamenn sjaldan almennilegar glufur á vörn Selfyssinga. Í sókninni var góður taktur og voru þar margir að taka af skarið. Liðið lék saman allan tímann og skilaði það miklu.
Leikmenn Selfoss virkuðu svo sannarlega undirbúnir í þennan leik og var sérstaklega gaman að sjá að hver einasti leikmaður skilaði einhverju mikilvægu til liðsins. Það hefur gríðarlega mikið að segja og verður vonandi svoleiðis áfram í vetur. Hópurinn er sterkur og inniheldur marga góða leikmenn. Liðið er til alls líklegt á þessu tímabili ef það nær að virkja alla leikmennina í að skila framlagi til liðsins.