Alfreð Elías tekur við kvennaliði Selfoss

knattspyrna-alfred-elias-johannsson
knattspyrna-alfred-elias-johannsson

Alfreð Elías Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu og verður Jóhann Ólafur Sigurðsson honum til aðstoðar.

Alfreð Elías tekur við starfinu af Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni sem stýrði liði Selfoss í síðustu umferðum Pepsi-deildarinnar en sem kunnugt er féllu Selfyssingar niður í 1. deild á nýliðnu keppnistímabili. Hann mun einnig þjálfa fimmta og sjötta flokk kvenna hjá Selfyssingum en hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.

Alfreð Elías kemur til Selfoss frá ÍBV þar sem hann stýrði meistaraflokki karla í Pepsi-deildinni seinni hluta tímabilsins í sumar, ásamt því að þjálfa 2. flokk karla.

Alfreð Elías er búsettur í Þorlákshöfn hvar hann þjálfaði karlalið Ægis um fimm ára skeið áður en hann fór til Vestmannaeyja og þar áður þjálfaði hann karlalið BÍ/Bolungarvíkur.

Jóhann Ólafur Sigurðsson, fyrrum leikmaður Selfoss, verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna ásamt því að þjálfa 2. flokk kvenna. Jóhann Ólafur var markvarðarþjálfari hjá karlaliði Fylkis í sumar, en hann lagði hanskana á hilluna haustið 2013 eftir að hafa leikið 99 deildarleiki með Selfyssingum í 1. deildinni.

---

Alfreð Elías var glaðbeittur eftir að hafa samið við Selfyssinga.
Ljósmynd: Mbl.is/Eggert Jóhannesson