Anna Metta setti stórglæsilegt HSK met í þremur aldursflokkum
Frjálsíþróttatímabilið er hægt og rólega að fara af stað á nýjan leik. Iðkendur hjá frjálsíþróttadeildinni hafa komið við sögu á nokkrum mótum síðastliðinn mánuð og það eru miklar bætingar hjá krökkunum svo að veturinn lofar góðu. Um síðustu helgi fór fram afar fjölmennt mót, Silfurleikar ÍR, fyrir 17 ára og yngri og þar áttum við keppendur í öllum aldurshópum og var árangur afar glæsilegur. 7 ára og yngri spreyttu sig í þrautarbraut með verkefnum sem hæfðu þeim aldurshópi. 8 - 9 ára kepptu í frjálsíþróttagreinum, þríþraut og svo með auknum aldri fjölgaði greinunum sem voru í boði þannig að 10 - 11 ára kepptu í fjórþraut, 12 ára í fimmtarþraut og 13 - 17 ára völdu sér svo greinar.
Í fjölþrautinni bættu börnin sig öll í að minnsta kosti einni grein og áttum við þrjá iðkendur sem að náðu toppsæti í sínum aldursflokki: Hilmir Dreki Guðmundsson varð annar í fjórþraut 10 ára pilta, Kristján Reynisson (Þjótanda) annar í fjórþraut 11 ára pilta og Magnea Furuhjelm Magnúsdóttir (Dímon) fjórða í fimmtarþraut 12 ára stúlkna.
Í flokki 13 ára stúlkna náði Adda Sóley Sæland silfri í kúluvarpi með kasti upp á 10,21 m á persónulegri bætingu. Í sama flokki átti Anna Metta Óskarsdóttir heldur betur frábæran dag og bætti sig í þremur greinum og fór fimm sinnum á verðlaunapall. Hún sigraði í tveimur greinum, hástökki með 1,48 m og í þrístökki með 11,24 m þar sem hún setti HSK met í þremur flokkum 13 ára, 14 ára og 15 ára ásamt því að vera aðeins 4 cm frá Íslandsmetinu í sínum aldursflokki (13 ára flokki). Hún vann einnig tvö silfur, í 60 m grindahlaupi á persónulegu meti, 10,48 sek og í 200 m hlaupi þar sem hún hljóp á 28,68 sek. Að lokum bætti hún sig í 60m hlaupi þegar hún hljóp á 8,52 sek og vann til bronsverðlauna.